Rekstur kjarnastreymisveitna (e. core streaming business) Disney er kominn í plús í fyrsta sinn frá því að afþreyingar- og upplifunarfyrirtækið setti streymisveituna Disney+ í loftið síðla árs 2019 en gífurlegt tap hefur fylgt streymisveitunni undanfarin ár.

Sá starfsþáttur undir streymiseiningu Disney sem inniheldur Disney+ og Hulu, skilaði rekstrarhagnaði upp á 47 milljónir dala á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 587 milljóna dala rekstrartap á sama tímabili í fyrra.

Í umfjöllun Financial Times segir að Disney hafi náð að skila hagnaði af þessari þjónustu nokkrum mánuðum fyrr en búist var við. Bætt afkoma hjá fyrrnefndum streymisþjónustum megi rekja til hagræðingaraðgerða og vinsælda þáttagerðar Hulu á borð við The Bear og Shogun.

Streymiseining Disney, sem inniheldur einnig íþróttastreymisveituna ESPN+, skilaði í heild sinni rekstrartapi upp á 18 milljónir dala á fjórðungnum samanborið við 659 milljóna rekstrartapi á sama tíma í fyrra. Félagið væntir þess að rekstrareiningin utan um streymisþjónustu samstæðunnar skili hagnaði á fjórða ársfjórðungi.

Streymisþjónusta Disney hefur leitt af sér tap upp á samtals 11 milljarða dala frá upphafi, að því er segir í frétt FT.

Gengi Disney fellur um 8% í fyrstu viðskiptum

Hlutabréfaverð Disney hefur lækkað um meira en 8% í fyrstu viðskiptum á bandaríska hlutabréfamarkaðnum í dag. Þess má þó geta að hlutabréf félagsins höfðu hækkað um 29% fram að uppgjörinu.

Disney tapaði tæplega 20 milljónum dala á fyrsta ársfjórðungi. sem má að stórum hluta rekja til þess afskrifta á viðskiptavild.

Disney færði upp afkomuspá sína og gerir félagið nú ráð fyrir að hagnaður á hlut aukist um 25% frá síðasta ári. Í frétt WSJ segir að markaðurinn hafi átt von á 25,3% vexti.