Töluvert hefur borið á efasemdum um ágæti rafmynta, ekki síst síðan þær fóru að vaxa að vinsældum og hækka verulega í verði fyrir nokkrum árum.

Viðskipti með þær hafa verið kölluð spákaupmennska og því haldið fram að eiginlegt virði þeirra sé ekki neitt, enda byggi þær bara á ósýnilegum stafrænum upplýsingum sem flæði milli fólks á netinu.

Verðhækkun þeirrar stærstu, Bitcoin, hefur verið líkt við túlípanaæðið í Hollandi á 17. öld. Sagt hefur verið að tæknilegar takmarkanir Bitcoin-kerfisins valdi því að myntin geti aldrei orðið almennur greiðslumiðill í heiminum.

Peningar hafa almennt lítið virði í sjálfum sér. Virði þeirra felst fyrst og fremst í tvennu:

Annars vegar notagildinu, því þeir gera úrsmiðnum kleift að borga bakaranum fyrir brauð án þess að bakarinn þurfi að kaupa úr. Hins vegar geyma þeir verðmætin sem þeir greiddu fyrir, svo lengi sem ekki er búið til meira af peningunum án verðmætasköpunar.

Seðlabankar veraldarinnar og ríkissjóðir hafa háð stríð gegn almenningi ...

Hugsanlega er hæpið að Bitcoin-tæknin sé þess eðlis að hún geti orðið almenn greiðslulausn í heiminum. Það er þó einungis tæknilegt úrlausnarefni sem vafalaust er verið að vinna að því að leysa. Bitcoin uppfyllir hins vegar svo sannarlega seinna skilyrðið. Enginn einn aðili getur skyndilega skapað meira af honum upp úr þurru og peningamagnið er fyrirsjáanlegt.

Þar liggur einmitt akkilesarhæll hefðbundinna ríkisgjaldmiðla. Seðlabankar veraldarinnar og ríkissjóðir hafa háð stríð gegn almenningi með því að neyða hann til að nota peninga sem sífellt rýrna í verði vegna gegndarlausrar peningaprentunar sömu aðila. Þannig hefur orðið eignatilfærsla af ótrúlegri stærðargráðu, frá þeim sem ekki hafa svigrúm til að verja sig með eignakaupum til þeirra sem fá nýju peningana fyrstir.

Virði rafmynta liggur í þessu. Það er andhverfan af verðmæti ríkisgjaldmiðla. Rafmyntir eru neyðarúrræði og sjálfsvörn almennings gegn eignaupptöku valdastéttarinnar.