Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja hafa vísað kjaradeilu sinni við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara en eitt helsta deilumálið er kostnaðarmat. Kostnaðurinn við þegar gerða samninga á almenna vinnumarkaðnum er um 17% en yrði 14,5% fyrir starfsmenn fjármálafyrirtækja, sem eru almennt á hærri launum.

Hvað kröfu starfsmanna fjármálafyrirtækja varðar að þessu sinni segir Sigríður að það sé skiljanlega freistandi að líta til mismunarins af 14,5% og 17% en vandinn liggi í því að Stöðuleikasamningurinn byggi ekki á einni flatri prósentuhækkun fyrir alla.

„Sú launastefna sem samið var um er í mun meira jafnvægi en við höfum séð um árabil. Um þetta var sátt á meirihluta á almennum vinnumarkaði. Það er því ekki rökrétt að halda því fram að sækja megi mismun. Allt sem við gerum núna eftir stefnumarkandi samninga hefur þannig vigt að það getur unnið með eða gegn markmiðinu um að ná niður verðbólgu svo við eygjum von um lækkun vaxta,“ segir Sigríður Margrét.

„Umræðan um stöðu viðræðna við starfsmenn fjármálafyrirtækja lýsir því svo vel hvar brugðið getur út af í þeim viðræðum sem eftir eru. Hversu miklar launahækkanir samræmast verðstöðugleika eru ekki endilega augljósar hagstærðir en eftir mikla vinnu í síðustu kjaralotu náðum við saman um það í tímamótasamningum. Okkur ber að standa vörð um þá niðurstöðu, öðruvísi náum við ekki langþráðum stöðugleika.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.