Í stjórn­sýslu­kæru Sam­skipa til á­frýjunar­nefndar Sam­keppnis­mála er Sam­keppnis­eftir­litið harð­lega gagn­rýnt fyrir að taka ekki til­liti til gengis­breytinga á evru og krónu eftir efna­hags­hrunið 2008 þegar eftir­litið reiknar úr verð­þróun á flutnings­verði.

Sam­keppnis­eftir­litið lagði 4,2 milljarða króna stjórn­sýslu­sekt á Sam­skip í fyrra fyrir m. a. að hafa hækkað flutnings­verð veru­lega í skjóli sam­ráðs við Eim­skip.

Eim­skip játaði að hafa staðið í sam­ráði með Sam­skipum og lauk málinu með sátt árið 2021 en Sam­skip stefndi Eim­skip fyrir rangar sakar­giftir fyrr í mánuðinum.

Í stefnunni eru að finna dóm­skjöl þar sem al­þjóð­legt greiningar­fyrir­tæki sakar SKE um að hafa ekki fram­kvæmt sjálf­stætt hag­fræði­legt mat á á­hrifum við­skipta skipa­fé­laganna t. d. í neyðar­flutningum.

Annar angi málsins er þó sjó­flutnings­verð á tímabilinu en áður en Eim­skip játaði mót­mælti skipa­fé­lagið harð­lega á­lyktunum Sam­keppnis­eftir­litsins í and­mæla­skjölum.

Í kæru Sam­skipa til á­frýjunar­nefndar er hins vegar vakin at­hygli á því að sjó­flutnings­verð, sem eru venju­lega reiknuð í evrum, séu tekin saman í krónum.

„Sam­keppnis­eftir­litið lítur al­farið fram hjá þeirri stað­reynd að árið 2008 varð efna­hags­hrun á Ís­landi þar sem ís­lenska krónan féll um 50% á að­eins nokkrum mánuðum. Stofnunin tekur jafn­framt ekki til­lit til þess að olíu­verð sveiflaðist gríðar­lega á þessum árum og hafði mikil á­hrif á olíu­kostnað á­frýjanda og annarra skipa­fé­laga,“ segir í stjórn­sýslu­kæru Sam­skipa

Verðhækkun til Rúmfatalagersins 2% í evrum

Í á­kvörðun eftir­litsins er til dæmis vikið að til­boði Eim­skips í til­fallandi flutninga fyrir Rúm­fata­lagerinn í októ­ber 2009.

Eftir­litið segir að til­boðið hafi verið tölu­vert hærra en fyrra til­boð sem fé­lagið gerði í flutninga Rúm­fata­lagersins í maí 2008 án þess þó að taka til­lit til þess að krónan hrundi í milli­tíðinni.

„Ef sjó­flutnings­verð Eim­skips í 40 feta gám í til­boði til Rúm­fata­lagersins eru virt má sjá að hækkunin frá til­boðinu í maí 2008 þar til í til­boðinu í októ­ber 2009 nam 63%. Ef sú hækkun er borin saman við breytingar á gengi ís­lensku krónunnar þá fór evran úr 118,1 í 184,1 á sama tíma. Sú hækkun var 64% sam­kvæmt gengis­skráningu á vef Seðla­banka Ís­lands. Verð­hækkunin í til­boði Eim­skips í ís­lenskum krónum fylgdi því þeirri breytingu. Ef til­boð Eim­skips er fært í evrur í báðum til­vikum þá fór það úr 398 evrum í 407 evrur, nánar til­tekið hækkun um 2%,“ segir í stjórn­sýslu­kæru Sam­skipa.

„Eðli málsins sam­kvæmt hækkuðu þau í krónum“

Einnig er bent á að þar sem allur skipa­kostnaður var í er­lendri mynt þurfti sjó­frakt að standa undir þeim kostnaði.

„Það þarf því ekki að leita langt eftir skýringum en vitan­lega henta þessar stað­reyndir ekki Sam­keppnis­eftir­litinu,“ segir í stjórn­sýslu­kæru.

Sam­skip fara hörðum orðum um þá á­kvörðun SKE að líta fram hjá gengis­breytingum á tíma­bilinu og segir skipa­fé­lagið að fram­ferði eftir­litsins við rann­sókn málsins „beri þess skýr merki að stofnunin telur sig ekki bundna af grund­vallar­reglum stjórn­sýslu­réttarins“.

Telur Sam­skip einnig ljóst að eftir­litið hafi brotið með „mjög grófum og al­var­legum hætti“ gegn rétt­mætis­reglu, sann­leiks­reglu, hlut­lægnis­skyldum, jafn­ræðis­reglu, rann­sóknar­reglu og meðal­hófi.

„Sjó­flutnings­gjöld í evrum lækkuðu jafnt og þétt á hinu meinta sam­ráðs­tíma­bili. Eðli málsins sam­kvæmt þá hækkuðu þau hins vegar í krónum talið. Sú hækkun var hins vegar vegna ytri að­stæðna sem hvorki á­frýjandi né Eim­skip höfðu nokkuð skapaðan hlut með að gera eða gátu haft á­hrif á.“

Hug­myndin er „hrein­lega barna­lega vit­laus“

Sam­skip gefa síðan lítið fyrir hug­myndir Sam­keppnis­eftir­litsins um hvernig skipa­fé­lagið hefði átt að bregðast við á erfiðum markaði eftir efna­hags­hrunið.

„Sam­keppnis­eftir­litið freistar þess, með sinni „þekktu mál­efna­legu nálgun“ að halda því fram að er­lend skipa­fé­lög hafi brugðist öðru­vísi við, lækkað verð og reynt að sækja aukið magn,“ segir í stjórn­sýslu­kæru Sam­skipa.

Skipa­fé­lagið segir eftir­litið líta al­gjör­lega fram hjá þeirri stað­reynd að verð­lækkun átti sér einnig stað á Ís­landi á tíma­bilinu. Kostnaður kerfisins var skorinn niður og verðin lækkuðu.

„Er­lendu fé­lögin þurftu hins vegar ekki að glíma við gengis­fall krónunnar, sem er grund­vallar­munurinn. Þá er ljóst að sú hugsun Sam­keppnis­eftir­litsins að rök­rétt hefði verið að fé­lögin myndu ein­fald­lega sækja aukið magn, með því að undir­bjóða markaðinn í stað þess að draga úr flutnings­getu er hrein­lega barna­lega vit­laus,“ segir í stjórn­sýslu­kæru Sam­skipa.