Í greiningum Copenhagen Economics, Reykjavík Economics og Intellecon á mögulegri röskun á samkeppnismarkaði vegna samninga sem Eimskip og Samskip gerðu sín á milli á meintu samráðstímabili Samkeppniseftirlitsins um t. d. neyðarflutninga, er komist að þeirri niðurstöðu að það sé afar ólíklegt að samningarnir röskuðu samkeppni.

Um er að ræða tímabilið 2008 til 2013 en skipafélögin hafa alveg frá árinu 2001 verið með samninga sín á milli um t. d. neyðarflutninga sem að þeirra sögn séu til að draga úr óhagræði.

Aðstæður þar sem reynir á slíka flutninga eru t. d. þegar stórir óviðráðanlegir atburðir (force majeure) koma upp eða þegar illviðráðanlegir atburðir (e. frustration) koma upp.

Sam­keppnis­eftir­litið taldi neyðar­samningana brjóta á 10. gr. sam­keppnis­laga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins um bann við samningum sem raska sam­keppni.

Sam­kvæmt Copen­hagen Economics gerði Sam­keppnis­eftir­litið ekki sjálf­stætt mat á hag­fræði­legum á­hrifum sam­komu­lagsins líkt og dóma­fram­kvæmd Evrópu­dóm­stólsins og leið­beiningar­reglur fram­kvæmda­stjórnar Evrópu­sam­bandsins (sem sinnir sam­keppnis­eftir­liti innan ESB) kveða á um.

Samningar milli sam­keppnis­aðila eru ekki sjálf­krafa brot á 10. gr. sam­keppnis­laga og 1. mgr. 53. gr. EES, heldur þurfa þeir að hafa það að mark­miði að raska sam­keppni eða hafa það í för með sér.

Sam­kvæmt dóma­fram­kvæmd í Evrópu er lagt til grund­vallar að til að upp­fylla þessi skil­yrði þurfi samningarnir í eðli sínu að fela í sér nægi­legan sam­keppnis­skaða.

Færri en 200 gáma­einingar af 386.000

Sam­kvæmt greiningu Copen­hagen Economics námu flutningar skipa­fé­laganna sam­kvæmt neyðar­sam­komu­laginu til um 0,01% af heildar­flutningum fyrir­tækjanna á meintu sam­ráðs­tíma­bili Sam­keppnis­eftir­litsins 2008 til 2013.

Í greiningu Reykja­vik Economics og Intellecon kemur fram að Eim­skip flutti 74 gáma­einingar fyrir Sam­skip á tíma­bilinu og Sam­skip fluttu 77 gáma­einingar fyrir Eim­skip.

„Sé þetta flutnings­magn sett í sam­hengi við heildar­flutt magn Sam­skipa á sama tíma, þ. e. ríf­lega 386.000 gáma­einingar (TEU), verður ljóst að um­fang við­skiptanna er það lítið að það hafði tæpast mælan­leg á­hrif á rekstur fé­laganna,“ segir í greiningu Reykja­vík Economics og Intellecon.

Að mati greiningar­fyrir­tækjanna allra er komist að þeirri niður­stöðu að það sé ó­mögu­legt að halda því fram að slíkir flutningar hafi haft mikil á­hrif á sam­keppnis­um­hverfi í sjó­flutningum.

„Gögn um flutninga á grund­velli neyðar­sam­komu­lagsins gefa til kynna að þeir hafi verið ó­reglu­legir og um­fang þeirra mjög tak­markað. Í ljósi þessa og eðlis þeirra flutninga sem um ræðir verður ekki séð að þessir samningar hafi haft að mark­miði að raska sam­keppni í skilningi 10. gr. sam­keppnis­laga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins,“ segir í á­liti Reykja­vík Econ­mics og Intellecon.

Ó­tækt að keppa á svæðum með 1.500 íbúa

Copen­hagen Economics kemst einnig að þeirri niður­stöðu að við­skipti fé­laganna um innan­lands­flutninga, t. d. á loka­metrum flutnings­leiða t. d. frá Reykja­vík til minni sveitar­fé­laga hér­lendis, hafi ekki verið gerð með það að mark­miði að skerða sam­keppni né hafi samningurinn haft þau á­hrif.

Um sé að ræða flutninga til svæða með 1.500 eða færri íbúa og því ekki efna­hags­lega hag­kvæmt að tvö flutninga­fé­lög fari margar ferðir á slíka staði, segir í út­tekt danska ráð­gjafar­fyrir­tækisins.

Sam­keppnis­eftir­litið telur einnig að sam­ráð hafi átt sér stað með flutninga til og frá Þórs­höfn og til og frá Djúpa­vogi. Að mati Copen­hagen Economics á þetta sér litla stoð þar sem flutningar Sam­skipa fyrir Eim­skip til Þórs­hafnar voru 0,13% til 0,32% af heildar­flutningum í tonnum per kíló­metra hjá Sam­skipum á tíma­bilinu. Flutningar til og frá Djúpa­vogi voru einnig undir 1% af heildar­flutningum Sam­skipa sam­kvæmt al­þjóð­lega ráð­gjafar­fyrir­tækinu.

Þessi frétt er hluti af lengri umfjöllun um greiningar þriggja ráðgjafarfyrirtækja á hagfræðilegum áhrifum meints samráðs skipafélaganna. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina hér.