„Það er mjög gaman að fá að taka þátt í því að breyta leiknum með Origo. Það þarf stöðugt að þróa til þess að uppfylla þarfir viðskiptavina og vera áfram fremst á markaði. Fjölbreytileiki starfsins gerir það að verkum að maður glímir við nýjar áskoranir á hverjum degi,“ segir Stefán Hirst Friðriksson sem hefur nýlega verið ráðinn til Origo í stöðu sölustjóra gæða- og innkaupalausna.

„Ég er að stíga inn á svið tengt gæða- og innkaupamálum sem ég hef ekki mikla fyrri reynslu af og er gaman að glíma við nýja hluti. Við höfum t.a.m. verið að hanna og kynna nýja lausn út á markaðinn – SpendSenze sem er sjálfvirk innkaupagreining og á að ná utan um öll innkaup fyrirtækja, með það að markmiði að koma augu á sparnaðarmöguleika og sporna við sóun í innkaupum hjá fyrirtækjum.“

Stefán er mikill íþróttaáhugamaður og er með puttann á púlsinum. „Ég hef gaman af íþróttum af öllum toga, fótbolta, snjóbretti og hlaupum. Einnig er ég að þreifa fyrir mér í golfi með vægast sagt misjöfnum árangri,“ segir Stefán og hlær.

Stefán er í sambúð með Áslaugu Benediktsdóttur, lögmanni hjá Magna, og eignuðust þau sitt fyrsta barn, Arnald Hirst, fyrir tæpu ári síðan.

„Það er gríðarlega gaman að takast á við foreldrahlutverkið í fyrsta skipti. Það hefur verið skemmtileg áskorun að púsla því saman að vera í fæðingarorlofi og að byrja í nýju starfi. Origo er frábært fyrirtæki fyrir fjölskyldufólk sem styður við bakið á manni á þessari vegferð.“

Viðtalið við Stefán birtist í heild sinni í Viðskiptablaði vikunnar.