Sjóða- og eignastýringarfyrirtækið Akta sjóðir hf. tapaði 79 milljónum króna á árinu 2023 samanborið við 1,3 milljóna hagnað árið 2022. Félagið birti nýverið ársreikning fyrir 2023 á heimasíðu sinni.

Rekstrartekjur Akta sjóða drógust saman um 12,5% milli ára og námu 399,5 milljónum króna í fyrra. Rekstrargjöld jukust um 9,5% og námu 497,7 milljónum króna.

Eignir félagsins voru bókfærðar á 899 milljónir króna í áslok 2023 samanborið við 1.012 milljónir ári áður. Eigið fé nam 797 milljónum. Örn Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Akta sjóða, er stærsti hluthafi félagsins með 44,6% hlut.

Hluthafar Akta sjóða í árslok 2023

Hluthafi Eignarhlutur
Solo Invest (Örn Þorsteinsson) 44,60%
Kvika banki 18,60%
Mörk Capital (Fannar Jónsson) 15,20%
Bergholt eignir (Þórhallur Ásbjörnsson) 9,79%
MC2 Invest (Davíð Stefánsson) 9,79%
Makkro (Birgir Haraldsson) 2,02%

Tólf sjóðir voru í rekstri Akta í lok síðasta árs og eignir í stýringu voru um 39,7 milljarðar króna í árslok 2023, að því er kemur fram í nýbirtum ársreikningi. Til samanburðar voru eignir í stýringu hjá félaginu um 40,7 milljarðar í árslok 2022.

Akta sjóðir hlutu árið 2022 aukið starfsleyfi frá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands til að stunda eignastýringu, fjárfestingarráðgjöf ásamt móttöku og miðlun fyrirmæla varðandi fjármálagerninga.

„Eignastýring er nýr vaxtarbroddur innan félagsins sem mun styðja við langtímavöxt þess. Félagið leggur áherslu á langtímahugsun og fjölbreytt þjónustuframboð til viðskiptavina,“ segir í skýrslu stjórnar.