Raunkostnaður borgarrekinna leikskóla var 2.481 milljón króna, eða 14,3%, umfram fjárheimildir á árinu 2023. Þetta kemur fram í skýrslu fjármála- og áhættustýringarsviðs borgarinnar

„Rekstur leikskóla hefur verið í verulegum halla frá hausti 2020,“ segir í ábendingu fjármála- og áhættustýringarsviðs. „Ætla má að það skýrist af ýmsum samverkandi þáttum s.s. áhrifum af styttingu vinnuvikunnar, fjölgun undirbúningstíma, auknum veikindum og fækkun barna í umsjón hvers starfsmanns.“

Fjármálsvið borgarinnar segir að á sama tíma og áhersla hafi verið á fjölgun leikskólaplássa í borginni til að takast á við biðlista, hafi ekki tekist að fullmanna leikskóla borgarinnar sökum manneklu.

„Það hefur leitt til þess að gildandi rekstrarleyfi eru ekki fullnýtt. Mikilvægt er að áætlun um uppbyggingu og fjölgun leikskólarýma taki mið af þeirri stöðu.“

Kalla eftir stefnu um kostnaðarþátttöku foreldra

Í skýrslunni kemur fram að útgjöld á barn í leikskólum borgarinnar hafi hækkað umtalsvert á föstu verðlagi frá árinu 2019 eða um 10,8%. Tekjur á barn hafi hins vegar dregist saman um 5,5%. Kostnaðarþátttaka foreldra var 8,4% á árinu 2019 en var aðeins 7,2% árið 2023.

„Mikilvægt er að mótuð verði stefna borgarinnar um kostnaðarþátttöku foreldra vegna reksturs leikskóla.“

Fjármála- og áhættustýringarsvið borgarinnar segir að brýnt sé að innleiða sem fyrst nýtt úthlutunarlíkan fyrir leikskóla borgarinnar sem liggur fyrir. Með þessu stjórntæki megi ná betri yfirsýn og tökum á rekstri leikskólanna.

Halli grunnskóla jókst þrátt fyrir nýtt líkan

Fjármála og áhættustýringarsvið borgarinnar fjallar í skýrslunni um nýtt grunnskólalíkan fyrir borgarrekna grunnskóla sem var innleitt haustið 2021 og hefur verið í notkun frá því í ársbyrjun 2022.

Borgarráð samþykkti við innleiðingu nýs líkans umtalsverðar viðbótar fjárheimildir til að styrkja rekstur skólanna og breyttar forsendur sem tóku mið af ítarlegri greiningu á rekstri þeirra.

Samþykkt var reynslutímabil til tveggja ára eða til loka árs 2023. Tækist grunnskólum sem fengju úthlutað fjármagni á grundvelli líkansins að haga rekstri sínum innan fjárheimilda og í jafnvægi á þeim reynslutíma yrði litið framhjá útgjöldum ársins 2021 umfram fjárheimildir og ekki var hægt að rekja til óhagstæðra ytri skilyrða samanber reglur Reykjavíkurborgar um gerð og framkvæmd fjárhagsáætlunar.

Halli borgarrekinna grunnskóla jókst hins vegar úr 284 milljónir króna í 640 milljónir króna á milli áranna 2022 og 2023. Það samsvarar að útgjöld til grunnskóla voru 0,9% yfir fjárheimildir á árinu 2022 og 1,8% yfir fjárheimildir á árinu 2023‏.

„Þrátt fyrir skýrar forsendur um fjármögnun á grundvelli nýs rekstrarlíkans er hluti grunnskólanna að glíma við frávik í rekstri sem þarf að takast á við. Brýnt er að leikreglur séu virtar og brugðist við með viðeigandi hætti. Framundan er frekari rýning með hliðsjón af ofangreindri samþykkt borgarráðs frá 2021.“

Skóla- og frístundasvið 3,5 milljörðum yfir fjárheimildum

Útgjöld til skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar á síðasta ári voru alls 3,5 milljörðum króna yfir áætlun og námu 74,3 milljörðum króna. Það samsvarar um 50% af skatttekjum A-hluta borgarinnar. Til samanburðar námu útgjöld til þessa málaflokks 69,5 milljörðum árið 2022.

Í skýrslu fjármála- og áhættustýringarsviðs borgarinnar kemur fram að launakostnaður á skóla- og frístundasviði var 2 milljörðum króna yfir fjárheimildum. Þar af voru langtímaveikindi rúmlega 500 milljónum króna yfir fjárheimildum.

Þá var aukinn kostnaður vegna verkefna þar sem tekjur koma á móti, s.s. tengdar stuðningi og þjónustu við fatlaða nemendur og þjónusta við flóttabörn, um 873 milljónir króna yfir áætlun. Tekið er fram að það sé að hluta til vegna þekktra skekkja sökum þess að nýtt leikskólalíkan hafi ekki verið innleitt við úthlutun fjárheimilda.

Auk þess var undir hráefniskostnaður mötuneyta á skóla- og frístundasviði, sem fellur undir annan rekstrarkostnað hjá A-hlutanum, 1 milljarði króna yfir fjárheimildum. „Að hluta til er um þekkta skekkju að ræða vegna mötuneyta leikskóla.“

Í skýrslunni er áréttað að skóla- og velferðarþjónusta borgarinnar hafi þurft að grípa til ýmissa aðgerða vegna móttöku flóttafólks og undir lok árs bættust við nýjar áskoranir vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga.