A-hluti Reykjavíkurborgar, þ.e. sem heldur utan um starfsemi sem er að hluta eða öllu leyti fjármögnuð með skatttekjum, var rekinn með tæplega 5 milljarða króna afgangi á árinu 2023, samkvæmt nýbirtum ársreikningi borgarinnar, en fjárhagsáætlun með viðaukum gerði ráð fyrir 4,5 milljarða halla. Til samanburðar var 15,6 milljarða halli af rekstri A-hlutans á síðasta ári.

Þá var 3,4 milljarða halli hjá A- og B-hluta Reykjavíkurborgar, sem er um 13 milljörðum undir áætlun. Til samanburðar var A- og B-hlutinn rekinn með 6 milljarða halla árið 2022.

„Helstu frávik frá áætlun er að finna í fjármagnsliðnum en nettó fjármagnsgjöld voru 10,3 milljarðar króna yfir áætlun, vegna vaxta, verðbóta og gengis sem þróaðist með öðrum hætti en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun og birtist einkum í reikningum Orkuveitu Reykjavíkur,“ segir í tilkynningu borgarinnar.

„Þá var matsbreyting fjárfestingaeigna Félagsbústaða undir því sem áætlað var, þar sem hægst hefur á hækkun fasteignaverðs saman borið við síðustu ár, auk þess sem gjaldfærsla lífeyrisskuldbindingar var hærri en áætlað var.“

Matsbreyting fjárfestingareigna Félagsbústaða var 2,8 milljörðum undir áætlun og nam 5 milljörðum króna. Til samanburðar nam matsbreytingin 20,5 milljörðum árið 2022.

Annar rekstrarkostnaður nærri 5 milljörðum yfir fjárheimildum

Rekstrartekjur A-hluta Reykjavíkurborgar, jukust um 13% milli ára og námu 176,4 milljörðum króna og voru um 7,6 milljörðum yfir áætlun. Rekstrargjöld jukust um 6,3% og námu 168,5 milljörðum.

„Annar rekstrarkostnaður var 4,9 milljörðum króna yfir fjárheimildum, sem er einkum rakinn til hráefniskostnaðar í mötuneytum, vistgreiðslna vegna barna með þroska- og geðraskanir, vetrarþjónustu og þjónustu við flóttafólk og hælisleitendur.“

Einar ánægður með bætta EBITDA

Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir (EBITDA) var jákvæð um nærri 8 milljarða króna en til samanburðar var hún neikvæð um 2,2 milljarða árið 2022. Þá voru fjármagnsliðir neikvæðir um 4,1 milljarð eða um 0,3 milljörðum umfram áætlun.

Í tilkynningu sem borgin sendi frá sér fagnar Einar Þorsteinsson borgarstjóri því að rekstrarhagnaður borgarinnar hafi batnað um 10 milljarða milli ára.

„Það er afar ánægjulegt að áætlanir okkar og aðgerðir um að ná niður miklum hallarekstri hafa skilað sér. Með samstilltu átaki hefur okkur tekist á einu ári að fara úr ríflega 15 milljarða halla niður í 5 milljarða og stefnum á að skila afgangi. Það er tíu milljarða jákvæður viðsnúningur og milljarði betur en upphafleg fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir,” segir Einar.

Eignfjárhlutfall A-hluta nam 29% en var 32% í árslok 2022. Skuldaviðmið A-hluta í árslok 2023 var 82%. Veltufé frá rekstri A-hluta var jákvætt um 11,5 milljarða króna og var 6,5% í hlutfalli af tekjum.