Þórður Ágúst Hlynsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Fossa fjárfestingarbanka. Hann gekk til liðs við Fossa árið 2022 sem verk­efna­stjóri í fyr­ir­tækjaráðgjöf Fossa.

Þar áður starfaði Þórður m.a. sem fjármálastjóri hjá Festi fasteignaþróunarfélagi og sem framkvæmdastjóri fyrirtækjaþróunar alþjóðlega sjávarútvegsfyrirtækisins Icelandic Group þar sem hann vann m.a. við framþróun stefnumótunar samstæðu og stýrði kaup- og söluferlum dótturfélaga. Þá starfaði Þórður í yfir sjö ár í Lundúnum sem ráðgjafi í fyrirtækjaráðgjöf og sem fjármálastjóri.

Þórður er viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og hefur lokið M.Sc. gráðu í fjármálum frá Cass Business School í Lundúnum. Auk þess hefur Þórður lokið námi í verðbréfaviðskiptum og FCA prófi í fyrirtækjaráðgjöf í Bretlandi.

Hyggjast efla þjónustuframboð fyrirtækjaráðgjafarinnar

Í fréttatilkynningu segir að Þórður muni leiða stækkandi teymi fyrirtækjaráðgjafar sem hefur verið að efla þjónustuframboð undanfarið með áherslu á kaup- og söluferli fyrirtækja, hlutafjárútboð og nýskráningar fyrirtækja á markað.

„Fyrirtækjaráðgjöf Fossa hefur síðustu ár verið leiðandi þegar kemur að útgáfu og skráningu skuldabréfa og víxla og í útgáfu grænna skuldabréfa á Íslandi. Nú hefur verið ákveðið að efla enn frekar þjónustuframboð fyrirtækjaráðgjafar og sækja í fjölbreyttari verkefni. Samhliða þessu hafa Fossar því ráðið til sín fleira starfsfólk með víðtæka reynslu af slíkum verkefnum.“

Söluráðgjöf í hlutafjárútboðum Amaroq Minerals og Play eru nýleg verkefni sem hafa verið á borðum fyrirtækjaráðgjafar Fossa. Þá er fyrirtækjaráðgjöf Fossa meðal annars einn af umsjónaraðilum varðandi fyrirhugaða skráningu Bláa Lónsins á makað og ráðgjafi Skeljar fjárfestingarfélags í tengslum við könnunarviðræður við Samkaup.