Eftir vinnu fjallaði um Marrakess í Marokkó í júní í fyrra. Þá var besta leiðin til að komast til Marrakesh í gegnum París.

Nú hafa lesendur Eftir vinnu meira val. Beint flug með Play tvisvar í viku frá 17. október. Eða flug með Icelandair til Parísar, eyða nokkrum nóttum þar og fara svo til Marrakesh með til dæmis Air France.

Við teljum því skyldu okkar að birta umfjöllunina um Marrakess aftur. Við höfum bætt við einum gististað síðan þá og mælum eindregið með honum.

Þetta skaltu gera í Marrakess

Marrakess er fjórða stærsta borg Marokkó og er nærri rótum Atlas fjallanna. Þar finnur maður sérstaka blöndu af nýja tímanum og þeim gamla.

Fyrir þá sem ekki hafa komið til múslimalands eru fyrstu dagarnir nokkur viðbrigði. Menningin er frábrugðin og bænastundirnar fara ekki framhjá þér.

Veðrið er ágætt stærstan hluta ársins, full heitt yfir hásumarið en á köflum full kalt frá nóvember til janúar. Það er þó ekki víst það það klikki. Til að mynda var desember síðastliðinn heitur í borginni.

Frönsk áhrif eru enn sterk í landinu þó þau fari dvínandi en landið fékk sjálfstæði árið 1956. Til marks um minnkandi áhrif Frakka er að ungt fólk vill heldur tala ensku en frönsku, sem var allsráðandi áður fyrr.

Hér skaltu búa

Gististöðum fjölgar stöðugt í Marrakess en algengustu tegundirnar eru tvær. Lúxushótel, oftar en ekki í jaðri borgarinnar, hluti af þekktri keðju með fullri þjónustu.

Og Riad, eða riyad, sem er fjölskylduhús sem oftast eru í nálægð miðbæjarins. Mörg slík hús hafa verið sameinuð í stærri gistiheimili þar sem er að finna sundlaug, veitingastað, bar og heilsulind, sem nefnist hammam.

La Mamounia hélt upp á eitthundrað ára afmælið sitt í fyrra. Töluverðar endurbætur voru gerðar á hótelinu. Meðal annars var Churchill barinn endurnýjaður.

La Mamounia - Griðastaðurinn

Mamounia er þekktasta og eitt dýrasta hótel borgarinnar og fagnar 100 ára afmæli í ár. Hótelinu er gríðarlega vel við haldið og standa endurbætur yfir nú í sumar.

Herbergin eru stór og notaleg og er sérstaklega gaman að snúa út í hótelgarðinn, sem er mjög stór og gróðursæll.

Það er sérstakur andi á hótelinu, uppfullur af sögu og þekktum einstaklingum. Þjóðhöfðingjar eru áberandi meðal þeirra.

Hótelið var griðastaður, eins og hótelið heitir á íslenskunni, Winston Churchill einn vetur. Charles de Gaulle Frakklandsforseti var tíður gestur þar, Franklin D. Roosevelt kom þangað minnst einu sinni sem og Nelson Mandela forseti Suður-Afríku, Ronald Reagan Bandaríkjaforseti og Helmut Kohl kanslari Þýskalands.

Franski tískukóngurinn Yves Saint Laurent dvaldi langdvölum á hótelinu áður en hann keypti sér villu í borginni. Bítlarnir komu þangað og Paul McCarteny samdi lagið Mamunia þegar hann dvaldi á hótelinu.

Margir veitingastaðir og barir eru á hótelinu. Svíta og bar eru nefnd til heiðurs Churchill. Tveir veitingastaðanna eru með Michelin stjörnur. Ef mönnum finnst full dýrt að gista á hótelinu er þó rétt og vert er að mæla sérstaklega með drykk á Bar Italien.

Maður finnur anda Winston Churchill á veitingastaðnum í Húsi arabana, sem er einn elsti og þekktasti veitingastaður borgarinnar.

La Maison Arabe

Hús arabana er ríad og staðsett fyrir innan gömlu borgarmúranna – medina, aðeins í nokkra mínútna göngufæri frá aðaltorginu Jemaa el-Fna. Franskar mæðgur hófu gistirekstur þar í kringum 1940 og opnuðu fyrsta veitingastaðinn fyrir útlendinga innan virkisveggisins.

Þetta er glæsilegt hótel í dag, með stórum og skemmtilega innréttuðum herbergjum, fallegu sundlaugarsvæði, stóru hammam-i og ágætum píanó jazzbar. Veitingastaðirnir eru tveir og einnig er skemmtilegur þakbar.

Vert er að mæla með kokkaskólanum sem er hluti af hótelinu og er staðsettur í næsta húsi. Þar fræðist maður um kryddin, sem Marokkóbúar er svo þekktir fyrir, matarsöguna og lærir að elda hefðbundinn marokkóskan mat, til dæmis kjúklingakássu (tagine).

Herbergin á Le Palais Rhoul er af stærri gerðinni.

Le Palais Rhoul

Gistihúsið Palais Rhoul er lítið, með aðeins 22 herbergi. Það er mjög heimilislegt, raunar svo heimilislegt að þér finnst þú vera gestkomandi heima hjá vini. Hins vegar er þjónustan fyrsta flokks og allur aðbúnaður eins og best verður á kosið, eins og ágæt heilsulind.

Herbergin sem eru út frá setustofu hússins eru mjög stór- allt að 100 fm. Í miðjunni er sundlaugin sem er sérstaklega sjarmerandi og notaleg. Þar er einnig veitingastaður á kvöldin.

Gistihúsið er í um korters akstursfjarlægð frá miðborginni, í lokuðu afgirtu svæði. Þar er mikil ró og friður og er það því sérstaklega gott fyrir þá sem vilja slappa af á ferðalagi sínu.

Nýuppgert ríadið er glæsilegt og í algjöri mótsögn við umhverfi sitt.

AnaYela ríad

AnaYela er einn af skemmtilegri gististöðum í borginni. Byggingin er 300 ára gömul og var algjörlega endurnýjuð fyrir skömmu.

Ríadið er í miðju íbúðarhverfi í norðurhluta gamla bæjarins- innan gömlu borgarmúranna. Það er mikil upplifun að koma að gistihúsinu og mörgum finnst dvölin þar hápunktur ferðar sinnar. Mörg hús hrundu í nágrenninu í jarðskálftanum sem reið yfir í september í fyrra.

Herbergin er misstór en mjög skemmtileg. Verðið hefur verið mjög sanngjarnt en við spáum því að það hækki á næstu misserum.

Það er sérstaklega heimilislegt og afslappað andrúmsloft á ríadinu. Þú getur til dæmis borðað morgunverðinn þegar þú vilt, sem er mikill kostur á ferðalagi. Morgunverðinn og kvöldverðinn getur þú borðað uppi á þaksvölunum eða við sundlaugina á jarðhæðinni. Má segja að bæði sé betra.

Hér skaltu borða og drekka

La Table de La Sultana

Veitingastaðurinn borðið á La Sultana riadinu er alveg sérstaklega skemmtilegur. Hann er stærri en veitingastaðurinn á La Maison Arab en í svipuðum anda.

Andrúmsloftið er þægilegt, opið upp í himinn og staðurinn líkt og vin í eyðimörkinni.

Franskir réttir með marokkósku ívafi, eða öfugt, er undirstaðan á matseðlinum. Þó réttirnir komi engum á óvart sem hefur dvalið í landinu um nokkra hríð er þar allt er eins og best verður á kosið.

Barinn á Royal Mansour

Aðalbarinn á Royal Mansour hótelinu er einhver allra flottasti barinn í borginni. Hann er í Art Deco stíl og maður hverfur til ársins 1920 um leið og maður stígur inn fyrir barsins dyr.

Hótelið opnaði árið 2010 og er í eigu Múhameðs sjötta, konungs Marokkó. Rétt eins og fleiri gistihús, svo sem La Mamounia. Mansour er dýrasta hótel borgarinnar.

Kabana

Kabana er óformlegur og svolítið hippalegur veitingastaður í miðbænum sem breytist í skemmtistað þegar líður á kvöldið. Hann er á þaksvölum með fallegu útsýni yfir Koutoubia moskuna sem er frá 12 öld.

Úrvalið af kokteilum er mikið og fjölbreytt. Maturinn er frá öllum heimshornum, allt frá sushi til steikur. Hann er mjög góður og góð tilbreyting frá hefðbundna marrokóska matnum.

Þetta skaltu skoða og gera

Það er margt að skoða í borginni. Mannlífið er lifandi og frábrugðið lífinu sem við þekkjum. Miðborgin og úthverfin eru ólík og gaman að sjá líf venjulegs Marokkóbúa.

Miðborgin og mannlífið

Jemaa el-Fna er aðaltorgið í borginni og er innan borgarmúranna. Sjálft torgið er ekki sérstaklega spennandi en þegar komið er inn í alla ranghalana er margt að sjá. Kryddbúðir, teppabúðir og margskonar skransölur er meðal þess.

Það er ys og þys í ranghölunum, menn á skellinöðrum, fólk að kallast á og því auðvelt að æra óstöðugan. Þá er ágætt að finna þakbar og horfa yfir borgina með drykk í hönd.

Glæsi-lega í eyðimörkinni

Það þarf ekki að ferðast nema hálftíma til að komast út í eyðimörkina. Þar er hægt að fara í glæsi-legu (e. Glamping) sem er eins og að búa að fimm stjörnu hóteli. Það er sérstakur matsalur, bar og hverju herbergi fylgir klósett.

Þetta er skemmtileg tilbreyting frá borginni og margt hægt að gera. Stjörnuskoðun, sitja á úlfalda, fara í loftbelg eða aka um smáþorp á böggíbílum eru dæmi um hvað hægt er að gera.

Winston Churchill í borginni

Það er gaman að elta uppi þá staði sem Winston Churchill fór á í borginni. Hann sparaði ekkert við sig á ferðalögum sínum og dvaldi ávallt á bestu hótelunum. Churchill bjó á La Mamounia veturinn 1935-1936 eftir að hafa verið neitað um ráðherrastól í bresku ríkisstjórninni.

Í hótelgarðinum málaði hann margar af sínum af sínum myndum, sem eru fágætar og verðmætar í dag. Churchill sagði eitt sinn við Roosevelt Bandaríkjaforseta að „Marrakess er einfaldlega besti staðurinn á jörðinni til að eyða eftirmiðdegi á.“

Enda er hans minnst á hótelinu. Einn barinn er á hótelinu er nefndur í höfuðið á fyrrum forsætisráðherranum sem og ein stærsta svítan á hótelinu.

Orðheppnasti maður allra tíma

Á vínseðlinum á Churchill barnum er vitnað í meistarann, sem var líklega einn orðheppnasti maður veraldar, fyrr og síðar. Eitt þeirra voru orðaskipti hans og Lady Nancy Astor, sem var fyrsta konan til að taka sæti í breska þinginu.

„Winston, ef ég væri gift þér myndi ég setja eitur í kaffið þitt. Nancy, ef ég væri kvæntur þér, myndi ég drekka það.“

Churchill var einnig fastagestur á veitingastaðnum á La Maison Arabe og átti sitt uppáhaldsborði í einu horninu.