Adam Schiff, bandarískur þingmaður Demókrataflokksins, var rændur í San Francisco í fyrradag skömmu áður en hann átti að mæta í kvöldverð með stuðningsmönnum en hann býður sig nú fram til öldungadeildar Bandaríkjaþings.

Samkvæmt fréttamiðlinum The Chronicle var brotist inn í bíl hans þar sem farangri þingmannsins var stolið ásamt jakkafötunum sem hann ætlaði að mæta í um kvöldið.

Kvöldverðurinn átti sér stað á ítalska veitingastaðnum Ristorante Rocca í Burlingame-hverfinu í San Francisco.

Lee Housekeeper, fjölmiðlafulltrúi Joe Cotchett, sem er helsti stuðningsmaður Schiff, sagði að þjófnaðurinn hefði verið ágætis „velkominn til San Francisco“ atvik og lagði til að Schiff gæti farið út að versla ný jakkaföt með fyrrum borgarstjóra San Francisco, Willie Brown.

San Francisco hefur þurft að glíma við háa tíðni fjármunabrota undanfarin ár en vopnuð rán og bílaþjófnaður jókst til að mynda umtalsvert árið 2022 á meðan tíðni manndrápa hélst óbreytt.

Verslunarkeðjan Nordstrom ákvað til að mynda að loka tveimur verslunum sínum í miðbæ San Francisco fyrir ári síðan vegna aukinnar glæpatíðni. Ákvörðun Nordstrom var ekki einsdæmi en fataverslanir á borð við H&M, Abercrombie & Fitch, Gap og Crate & Barrel hafa öll yfirgefið miðbæ San Francisco á undanförnum fjórum árum.

Hótelrekstur í borginni hefur heldur ekki verið jafn erfiður í tæp 15 ár en tekjur fyrir hvert hótelherbergi í San Francisco í fyrra voru 23% lægri en þær voru árið 2019.

Hærri glæpatíðni og skert lífsgæði höfðu meðal annars haft þau áhrif að færri fyrirtæki vildu halda ráðstefnur í borginni, en hópbókanir fyrir slíkar samkomur höfðu verið mikilvæg líflína fyrir hótel eftir heimsfaraldur.

Ástandið hefur heldur ekki batnað hinum megin við San Francisco-flóa í Oakland en lögreglan þar segir að rán með notkun skotvopna hafi hækkað um 42% á einu ári. Sífellt fleiri fyrirtæki hafa tekið upp á því að neita að greiða skatta til yfirvalda fyrr en borgarstjórnin nær að auka lögreglueftirlit og draga úr glæpatíðninni.