Tekjur fyrir hvert hótelherbergi í San Francisco voru 23% lægri í apríl á þessu ári samanborið við árið 2019. Samkvæmt fréttamiðlinum Wall Street Journal hefur rekstur hótela í San Francisco ekki verið svona erfiður í tæp 15 ár.

Í samanburði hafa hótel í bæði New York og Los Angeles tekið á móti svipuðum fjölda gesta og þau gerðu fyrir heimsfaraldur.

Í greiningunni segir að hærri glæpatíðni og skert lífsgæði hafi meðal annars haft áhrif á vilja margra fyrirtækja að halda ráðstefnur í San Francisco, en hópbókanir fyrir slíkar samkomur hafa verið mikilvæg líflína fyrir hótelin. Eftir heimsfaraldur hafi margir starfsmenn tæknifyrirtækja í Kaliforníu einnig byrjað að vinna heima og hefur það dregið úr viðskiptaferðum til borgarinnar.

Á undanförnum mánuðum hafa nokkur hótel í San Francisco gefist upp á rekstri og má þar nefna Huntington hótelið og Yotel San Francisco sem seldust nýlega á uppboði. Club Quarters San Francisco hefur einnig staðið í vanskilum síðan 2020 og gæti neyðst til að hætta starfsemi sinni.

Meira en 20 hótel í borginni glíma nú einhvers konar lánaerfiðleika og gætu þurft að loka dyrum sínum á næstu tveimur árum. Park Hotels & Resort tilkynnti í síðustu viku að það hafi hætt að greiða af lánum sínum en hótelið er staðsett í miðborg San Francisco skammt frá stærstu verslunargötu borgarinnar.

Verslunarkeðjur á borð við Nordstrom, Crate & Barrel og H&M hafa einnig lokað verslunum sínum í San Francisco af svipuðum ástæðum. Mörg tæknifyrirtæki hafa einnig byrjað að leigja út skrifstofur sínar á afslætti og hafa ferðalög til borgarinnar fækkað um 31% miðað við 2019.