Bandaríska verslunarkeðjan Nordstrom hefur ákveðið að loka tveimur verslunum sínum nálægt miðbæ San Francisco. Talsmenn keðjunnar segja ákvörðunina tengjast hækkandi rekstrarkostnað, færri viðskiptavinum og aukinni glæpatíðni.

Lokanirnar endurspegla einnig breytingar í neysluvenjum Bandaríkjamanna en bæði viðskiptavinir og fyrirtækjaeigendur endurskoða nú fjármál sín í ljósi yfirvofandi efnahagskreppu. Sumir borgarstjórar hafa hins vegar reynt að hvetja verslunarkeðjur eins og Nordstrom til að halda starfsemi sinni gangandi með því að bjóða upp á skattatengd fríðindi.

„Miðbæir í Bandaríkjunum hafa tekið á sig stórt högg í ljósi hækkandi vaxta og þeirrar staðreyndar að mun fleiri vinna nú heima,“ segir hagfræðingurinn Torsten Slok.

Ákvörðun Nordstrom er ekki einsdæmi en fataverslanir á borð við H&M, Abercrombie & Fitc, Gap og Crate & Barrel hafa öll yfirgefið miðbæ San Francisco á undanförnum þremur árum.

Unibail-Rodamco-Westfield, eigandi verslunarmiðstöðvarinnar í miðbæ San Francisco, segist hafa fundað með borgaryfirvöldum undanfarin ár og hvatt þau til að auka öryggisgæsluna í miðbænum. Hún segir að ráði þurfi mun fleiri öryggisverði til að takast á við það sem hún lýsir sem „hömlulausri glæpastarfsemi.“

Tíðni ofbeldisglæpa í San Francisco er lægri en í mörgum öðrum bandarískum stórborgum, en tíðni fjármunabrota er hins vegar mun hærri. Tíðni vopnaðra rána og bílaþjófnaðar jókst til að mynda umtalsvert árið 2022 á meðan tíðni manndrápa hélst óbreytt.