Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er fjallað um könnun sem Outcome framkvæmdi fyrir Samtök iðnaðarins meðal stjórnenda íslenskra iðnfyrirtækja innan Samtaka iðnaðarins í febrúar og mars á þessu ári. Aðspurðir töldu um 44% stjórnenda að aðstæður í efnahagslífinu á Íslandi væru góðar fyrir þeirra fyrirtæki og 18% töldu að þær séu slæmar. Hlutfallið breyttist lítið frá síðustu könnun fyrir ári þegar 45% sögðu að aðstæður góðar meðan 20% sagði að þær væru slæmar. Hlutfall þeirra sem telja að aðstæður séu hvorki slæmar né góðar hækkaði á milli ára, eða úr 34% í fyrra í 37% nú.

Stjórnendur voru spurðir hvernig þeir meta aðstæður í efnahagslífinu fyrir þeirra fyrirtæki litið til næstu 6-12 mánaða miðað við aðstæður í dag. Niðurstöðurnar sýna að 34% telja að aðstæður verði betri en um 13% að þær verði verri. Nokkuð hærra hlutfall stjórnenda telur að aðstæður verði betri eftir 6-12 mánuði en fyrir ári síðan, eða 34% nú samanborið við 20% fyrir ári síðan. Þá lækkaði hlutfall þeirra sem telja að aðstæður verði verri á næstu misserum, úr 29% í 13%.

Í einni spurningu í könnun SI voru þátttakendur beðnir um að svara því hvernig þeir teldu að tekjur þeirra fyrirtækja kæmu til með að þróast á 2., 3., og 4. ársfjórðungi þessa árs í samanburði við sama ársfjórðung í fyrra. Tæplega 43% stjórnenda sögðu að tekjur muni koma til með að aukast á 2. ársfjórðungi en 20% að þær muni dragast saman. Ríflega þriðjungur taldi að þær muni standa í stað. Á þriðja ársfjórðungi telja ríflega helmingur að tekjur muni aukast á milli ára en 16% að þær muni dragast saman. 30% reikna með að þær standi í stað á þeim ársfjórðungi. Á fjórða ársfjórðungi vænta 46% svarenda tekjuvaxtar, 17% samdrætti og þriðjungur sér fram á að tekjur muni standa í stað.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.