JPMorgan Chase, stærsti banki Bandaríkjanna, er með það til skoðunar að taka rafmyntaegnir sem veð fyrir lánum. Bankinn gæti byrjað að taka rafmyntir á borð við bitcoin og etherum sem veð fyrir eignum strax á næsta ári, samkvæmt heimildum Financial Times.

Heimildarmenn FT árétta að áformin gætu tekið breytingum. Bankinn sjálfur vildi ekki tjá sig um málið.

Slík ákvörðun myndi marka mikla stefnubreytingu hjá forstjóranum Jamie Dimon sem fyrir átta árum síðan kallaði bitcoin „fjársvik“ sem mun „að lokum springa“ og bætti við að rafmyntin væri einungis nytsamleg fyrir eiturlyfjasala og morðingja. Hann hótaði einnig að reka alla miðlara sem fjárfestu í rafmyntinni.

Möguleg útlán JPMorgan gegn rafmyntum gefa til kynna að stærstu bankar heims og fjármálageirinn í heild sinni er byrjaður að huga að þessum eignaflokki í auknum mæli.

Einn heimildarmaður FT segir að ofangreind ummæli Dimon hafi styggt suma fjárfesta sem höfðu annað hvort þegar fjárfest í rafmyntum eða töldu eignaflokkinn geta vaxið til framtíðar.

Dimon mildaði nýlega afstöðu sína gagnvart rafmyntum. „Ég held að þú ættir ekki að reykja en ég mun verja rétt þinn til reykinga. Að sama skapi mun ég verja rétt þinn til að kaupa bitcoin,“ sagði hann í maí.

JPMorgan hefur þegar tekið skref í þessa átt með að taka hlutdeildarskírteini í skráðum rafmyntasjóðum sem veð fyrir útlánum.