Fasteignafélagið Kaldalón hefur gengið frá kaupum á öllu hlutafé í Baldurshaga ehf. annars vegar, þar sem eina fasteign þess að viðskiptum loknum er fasteign við Krókháls 16, og hins vegar fasteignum við Skúlagötu 15 og Klettháls 1A.
Endanlegt heildarvirði ofangreindra viðskipta nemur 2.335 milljónum króna, samkvæmt tilkynningu Kaldalóns til Kauphallarinnar. Áætlað er að rekstrarhagnaður fasteignafélagsins aukist um 171 milljónir króna á ársgrunni í kjölfar viðskiptanna.
Baldurshagi var í jafnri eigu Gunnlaugar Helgu Einarsdóttur, Odds Carls Einarssonar og Rannveigar Ölmu Einarsdóttur.
Seljandi fasteignanna að Skúlagötu 15 og Kletthálsi 1a er Fastherji ehf., systurfélag Frumherja. Aðaleigandi Fastherja er Andri Gunnarsson, fjárfestir og lögmaður, með 72,5% hlut.
Í fjárfestakynningu sem Kaldalón birti 22. ágúst sl. kemur fram að iðnaðar- og verslunarhúsnæðið að Krókhálsi 16 sé um 3.500 fermetrar og standi á um 19 þúsund fermetra lóð. Fasteignin hýsir starfsemi Þórs hf.
Klettháls 1A er iðnaðar- og þjónustuhúsnæði sem hýsir starfsemi Bílastjörnunnar. Skúlagata 15 er þjónustulóð staðsett við Sæbraut.
