Rækjuvinnslan Kampi á Ísafirði tapaði 195 milljónum árið 2020 og 46 milljónum árið áður. Eigið fé Kampa var neikvætt um 127 milljónir í árslok 2020 og skuldir voru 1,1 milljarður, að því er kemur fram í ársreikningi félagsins.

Tekjur félagsins drógust saman um nærri fjórðung á milli ára og námu 2,7 milljörðum árið 2020. Laun og annar starfsmannakostnaður nam 306 milljónum en stöðugildi að meðaltali voru 40.

Kampi fór í greiðslustöðvun í byrjun síðasta árs. Lánadrottnar félagsins samþykktu nauðasamning í október sem fól í sér niðurfellingu á 70% af lýstum kröfum, eða sem nemur 254 milljónum samkvæmt skýrslu stjórnar. Kampi hefur tryggt sér 200 milljónir til standa við efndir nauðsamningsins og greiðslu krafna sem falla utan við hann. Jafnframt segir að vilyrði nokkurra aðila um að leggja fram nýtt hlutafé liggi fyrir.

Sjá einnig: Bókhald Kampa „byggt á skáldskap“

Jón Guðbjartsson, stjórnarformaður og aðaleigandi Kampa, lýsti því í samtali við Mogunblaðið eftir að Kampi fór í greiðslustöðvun að bókhald fyrirtækisins hafi „byggst á skáldskap í allt of langan tíma“ og ársreikningar því ekki gefið rétta mynd af fjárhagsstöðu fyrirtækisins.

Var annar af tveimur verklegum stjórnendum Kampa talinn hafa staðið þar að baki og var honum sagt upp störfum og vísað úr stjórn félagsins. „Annar verklegra stjórnenda fyrirtækisins gerði skandal sem við vissum ekki um,“ hafði Morgunblaðið eftir Jóni í janúar 2021. Kampi kærði athæfi starfsmannsins fyrrverandi til lögreglunnar.