Akta Stokkur, hlutabréfasjóður í stýringu hjá Akta sjóðum, keypti um 0,6% hlut í Eimskipi í síðasta mánuði og fer nú með 1,3% hlut í flutningafélaginu. Sé miðað við meðalgengi félagsins í síðasta mánuði má ætla að kaupverðið hafi numið 520 milljónum króna.
Sjóðurinn stækkaði einnig hlut sinn í Símanum úr 1,2% í 1,5% en gera má ráð fyrir hann hafi fjárfest fyrir tæplega 300 milljónir í fjarskiptafélaginu í febrúar. Akta Stokkur seldi hins vegar meira en fjórðung af hlut sínum í Icelandair og fer nú með 1,34% hlut í flugfélaginu. Einnig seldi hann nærri 1% hlut í bæði Origo og Iceland Seafood. Miðað við meðalgengi félaganna þriggja fékk sjóðurinn um 1,1 milljarð króna fyrir sölu hlutabréfum þeirra í febrúar.
Akta Stokkur minnkaði einnig hlut sinn í Play og Sýn. Akta sjóðir hafa verið einn virkasti þátttakandi á íslenskum hlutabréfamarkaði á síðustu misserum.