Árs­reikningur LZT Holding ehf. fyrir árið 2024 sýnir að félagið, sem á vöru­merki Lata­bæjar, keypti eignir tengdar Lata­bæ frá Warner Bros. Discovery fyrir 230 milljónir króna á síðasta ári.

Með kaupunum eignast félagið öll réttindi að Lata­bæjarþáttunum, sem áður höfðu verið sýndir í 170 löndum og á 27 tungumálum.

Eig­endur LZT Holding, sem var stofnað í fyrra, eru annars vegar Ötull ehf., sem er í meiri­hluta­eigu Péturs Bjarna­sonar, og hins vegar Live ehf., félag í eigu Magnúsar Scheving og eigin­konu hans, Hrefnu Bjarkar Sverris­dóttur.

Magnús sagði í viðtali við Morgun­blaðið í maí að hann hefði lengi viljað endur­heimta Lata­bæ en fyrst hafi verðið verið allt­of hátt.

„Þeir vildu að þetta færi í hendur frum­kvöðulsins,“ sagði hann um af­stöðu Warner Bros. sem átti réttindin frá árinu 2011 þegar Turner Broa­d­casting keypti Lata­bæ fyrir nærri 2,8 milljarða króna.

Á þeim tíma átti Magnús Scheving og þáverandi eiginkona hans, Ragnheiður Melsteð, 40% hlut í félaginu.

Sé miðað við sölu­verðið árið 2011 eru Magnús og Pétur að kaupa Lata­bæ aftur á um 8,2% af því verði sem Warner Bros. greiddi árið 2011. Með öðrum orðum var verðið núna rúm­lega 91% lægra en þá.

Ef kaup­verðið árið 2011 er reiknað á núvirði jafn­gildir það um 4,8 milljörðum króna og greiddu Magnús og Pétur sam­kvæmt því um 4,8% af sölu­verðinu 2011.

Til að fjár­magna kaupin lagði félagið fram nýtt hluta­fé að fjár­hæð 230,5 milljónir króna og tók jafn­framt lán frá eig­endum sínum. Sam­kvæmt lána­samningi nam láns­fjár­hæðin 70 milljónum króna. Í árs­lok hafði félagið dregið 30 milljónir á lánið.

Sam­kvæmt lána­samningi mun félagið greiða lánið niður með 50 pró­sentum af öllu lausu fé félagsins eftir hvert rekstrarár þar til það er að fullu greitt.

Fyrstu af­borganir, sem nema 3,6 milljónum króna, eru áætlaðar árið 2025.

Rekstrar­tekjur félagsins námu 9,96 milljónum króna á árinu en rekstrar­gjöldin voru 12,8 milljónir króna. Tap ársins fyrir skatta nam því 2,2 milljónum króna en fjár­magns­tekjur drógu lítil­lega úr tapinu.

Efna­hags­reikningur sýnir að í lok ársins 2024 voru heildar­eignir félagsins 259,8 milljónir króna, þar af voru óefnis­legar eignir (vöru­merki Lata­bæjar) metnar á 230 milljónir króna. Eigið fé nam 228,3 milljónum króna.