Ársreikningur LZT Holding ehf. fyrir árið 2024 sýnir að félagið, sem á vörumerki Latabæjar, keypti eignir tengdar Latabæ frá Warner Bros. Discovery fyrir 230 milljónir króna á síðasta ári.
Með kaupunum eignast félagið öll réttindi að Latabæjarþáttunum, sem áður höfðu verið sýndir í 170 löndum og á 27 tungumálum.
Eigendur LZT Holding, sem var stofnað í fyrra, eru annars vegar Ötull ehf., sem er í meirihlutaeigu Péturs Bjarnasonar, og hins vegar Live ehf., félag í eigu Magnúsar Scheving og eiginkonu hans, Hrefnu Bjarkar Sverrisdóttur.
Magnús sagði í viðtali við Morgunblaðið í maí að hann hefði lengi viljað endurheimta Latabæ en fyrst hafi verðið verið alltof hátt.
„Þeir vildu að þetta færi í hendur frumkvöðulsins,“ sagði hann um afstöðu Warner Bros. sem átti réttindin frá árinu 2011 þegar Turner Broadcasting keypti Latabæ fyrir nærri 2,8 milljarða króna.
Á þeim tíma átti Magnús Scheving og þáverandi eiginkona hans, Ragnheiður Melsteð, 40% hlut í félaginu.
Sé miðað við söluverðið árið 2011 eru Magnús og Pétur að kaupa Latabæ aftur á um 8,2% af því verði sem Warner Bros. greiddi árið 2011. Með öðrum orðum var verðið núna rúmlega 91% lægra en þá.
Ef kaupverðið árið 2011 er reiknað á núvirði jafngildir það um 4,8 milljörðum króna og greiddu Magnús og Pétur samkvæmt því um 4,8% af söluverðinu 2011.
Til að fjármagna kaupin lagði félagið fram nýtt hlutafé að fjárhæð 230,5 milljónir króna og tók jafnframt lán frá eigendum sínum. Samkvæmt lánasamningi nam lánsfjárhæðin 70 milljónum króna. Í árslok hafði félagið dregið 30 milljónir á lánið.
Samkvæmt lánasamningi mun félagið greiða lánið niður með 50 prósentum af öllu lausu fé félagsins eftir hvert rekstrarár þar til það er að fullu greitt.
Fyrstu afborganir, sem nema 3,6 milljónum króna, eru áætlaðar árið 2025.
Rekstrartekjur félagsins námu 9,96 milljónum króna á árinu en rekstrargjöldin voru 12,8 milljónir króna. Tap ársins fyrir skatta nam því 2,2 milljónum króna en fjármagnstekjur drógu lítillega úr tapinu.
Efnahagsreikningur sýnir að í lok ársins 2024 voru heildareignir félagsins 259,8 milljónir króna, þar af voru óefnislegar eignir (vörumerki Latabæjar) metnar á 230 milljónir króna. Eigið fé nam 228,3 milljónum króna.