Kjarnafæði Norðlenska (KN) tapaði 199 milljónum króna eftir skatta árið 2024 samanborið við 403 milljóna hagnað árið 2023.

Velta samstæðunnar jókst um 43,5% milli ára og nam 12,5 milljörðum króna í fyrra, samanborið við 8,7 milljarða árið 2023. Rekstrargjöld jukust um 50% milli ára og námu 12,1 milljarði króna. Rekstrarhagnaður (EBIT) fór úr 584 milljónum í 279 milljónir milli ára.

Stjórn félagsins segir að árið 2024 hafi verið viðburðaríkt og krefjandi ár í rekstri. Ytri aðstæður hafi á margan hátt verið óhagstæðar þar sem hátt vaxtastig og hækkandi verðlag aðfanga hafði mikil áhrif á fjármagnsgjöld og rekstrarkostnað félagsins.

„Heildar eftirspurn eftir framleiðsluvörum félagsins var nokkuð stöðug á árinu 2024. Innanlands var vöxtur á stærsta markaðssvæði félagsins og hjá stærstu viðskiptavinum. Útflutningur var með sambærilegum hætti og síðastliðin ár en markaðir fyrir aukaafurðir gáfu verulega eftir á árinu.“

Eignir félagsins voru bókfærðar á 7,6 milljarða króna í árslok 2024 og eigið fé var um 785 milljónir króna.

Á árinu 2023 sameinuðust Kjarnafæði Norðlenska hf. og SAH afurðir ehf. og miðaðist samruninn við 1. janúar 2023. Þá sameinaðist félagið dótturfélaginu Norðlenska matborðið ehf. á árinu 2024 og miðaðist sá samruni við 1. janúar 2024.

Lykiltölur / Kjarnafæði Norðlenska ehf.

2024 2023
Rekstrartekjur 12.514 8.722
EBITDA 451 674
EBIT 279 584
Afkoma -199 403
Eignir 7.628 4.479
Eigið fé 785 984
Ársverk 290 166
- í milljónum króna

Olli „verulegu tjóni“ að þurfa að fresta hagræðingaraðgerðum

Sem þekkt er keypti Kaupfélag Skagfirðinga (KS) Kjarnafæði Norðlenska í fyrra og voru kaupin fullnustuð á haustmánuðum.

„Veruleg hagræðingartækifæri í slátrun og úrvinnslu landbúnaðarvara sköpuðust við kaupin. Með hliðsjón af þessu skapaðist svigrúm til hækkana á verði til bænda og var verð til sauðfjárbænda hækkað á haustdögum.“

Í nóvember 2024 féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur um að vinnubrögð Alþingis við breytingar á búvörulögum vorið 2024 þess efnis að framleiðendafélögum væri heimilt að sameinast og hafa með sér verkaskiptingu þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga stæðust ekki stjórnarskrá og hafi því ekki lagalegt gildi.

„Dómurinn og fyrirmæli Samkeppniseftirlitsins í framhaldi af honum sköpuðu verulega óvissu í rekstri fyrirtækisins þar sem meðal annars þurfti að fresta mikilvægum hagræðingaraðgerðum sem hefur ollið félaginu verulegu tjóni,“ segir stjórn KN.

Í maí 2025 féll dómur í Hæstarétti Íslands þar sem dómi Héraðsdóms var snúið og búvörulög frá því vorið 2024 standa‏.

„Stjórnendur félagsins hafa á undanförnum mánuðum leitað allra leiða til að hagræða enn frekar í rekstri fyrirtækisins þrátt fyrir þá miklu óvissu sem fyrrnefndur dómur skapaði í rekstri Kjarnafæðis Norðlenska ehf. Þörf fyrir hagræðingu innan félagins og í greininni í heild er mjög mikil við núverandi aðstæður þar sem fjárhagslegt heilbrigði og framleiðsluvilji bænda annarsvegar og samkeppnishæfni á markaði fyrir afurðir hinsvegar er forsenda sjálfbærs rekstrar félagsins.

Í ljósi þessa ákvað stjórn seint á árinu 2024 að ráðast í umtalsverða hagræðingu á árinu 2025 og ber þar helst að nefna áætlanir um að leggja af starfsstöð félagsins á Blönduósi í áföngum.“

Í síðasta mánuði var greint frá því að KN hefði fest kaup á sláturhúsi, kjötvinnslu og verslun B. Jensen. Með kaupunum ræður KN nú yfir tveimur stórgripasláturhúsum í Eyjafirði.