Forsætisráðherra hefur nú ákveðið að stefnt skuli að því að næsti kjördagur verði síðasta laugardag í september 2021 – eða 25. september 2021. Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins .
Núverandi kjörtímabili Alþingis lýkur þann 28. október árið 2021. Eins og áður hefur komið fram hefur forsætisráðherra sagt að upplýst verði um kjördag fyrir komandi þingvetur.
Stjórnarandstaðan hafði þrýst á að kosið yrði fyrr. Annað hvort strax í haust eða næsta vor. Rökin fyrir því að kjósa í haust hafa helst verið að taka þurfi afstöðu í stórum málum vegna kórónuveirufaraldursins sem lítið hafi verið fjallað um fyrir síðustu kosningar eða í stjórnarsáttmálanum enda heimsfaraldurinn ekki komið upp þá. Með því að kjósa næsta vor gæfist nýrri ríkisstjórn meira svigrúm til að setja sitt mark á ríkisfjármálin með því að leggja fram fjárlög að hausti. Lítið færi gefist á slíku þegar kosið sé að hausti.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur á mót sagt að hann telji eðlilegt að ríkisstjórnin klári fjögurra ára kjörtímabil enda hafi mikið verið fyrir því haft að mynda ríkisstjórn og komast til valda.
Nú hefur forsætisráðherra skorið á hnútinn og ákveðið að kjörtímabilið verði fjögur ár og kosið verði í september að ári.