Yrkir, fasteignafélag í eigu Festi, keypti lóðarleigu- og byggingaréttindi við Urriðaholtsstræti 3-5 í Garðabæ fyrir 137,5 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi. Kaupin eru háð ýmsum fyrirvörum, þar á meðal um endanlegt deiliskipulag lóðarinnar.

Áform eru um að þar muni rísa ný Krónuverslun ásamt skrifstofuhúsnæði innan næstu 3-4 ára, að því er kemur fram í uppgjörstilkynningu Festi, móðurfélags Krónunnar.

Útlit er því fyrir að Krónan opni verslun skammt frá verslunum Costco og Bónus í Kauptúni. Krónan rekur fyrir eina matvöruverslun í Garðbæ að Akrabraut 1. Aðrar verslanir Krónunnar í grennd við Urriðaholtið eru að Skógarlind 2-4 í Kópavogi og að Flatahrauni 13.

Áformuð verslun Krónunnar í Urriðaholtinu yrði á móti húsnæði Náttúrufræðistofnunar. Teikningin er tekin frá Garðabæ.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Selja lóðir sem hýstu áður bensínstöðvar fyrir milljarð

Festi tilkynnti samhliða um að félagið hefði undirritað samninga við Sérverk ehf. um sölu á lóðum félagsins við Skógarsel 10 og Stóragerði 40 í Reykjavík, þar sem N1 rak áður bensínstöðvar.

Sérverk er byggingarfyrirtæki í eigu Elíasar Guðmundssonar. Félagið velti 2,8 milljörðum króna í fyrra og var með eignir upp á 7,1 milljarð króna í árslok 2024.

Söluverð lóðanna er 1.010 milljónir króna en bókfært verð er um hálfur milljarður, að því er segir í uppgjörstilkynningu Festi. Viðskiptin munu ekki koma inn í uppgjör samstæðunnar fyrr en allir fyrirvarar eru uppfylltir.

Festi segir samningana háða ýmsum fyrirvörum, þar á meðal um endanlegt deiliskipulag lóðanna. Óvissa sé um hvenær allir fyrirvarar verði uppfylltir en væntingar eru um að hægt verði að ljúka viðskiptunum eigi síðar en á fyrsta ársfjórðungi 2026.

Gamla bensínstöð N1 að Skógarseli 10.
© Morgunblaðið/sisi (Morgunblaðið/sisi)

Þá tilkynnti samstæðan um kaup dótturfélagsins Yrkis á Dalakofanum að Laugum í Reykjadal sem rekur veitingarekstur og verslun. N1 hefur rekið þar eldsneytisafgreiðslu á lóðinni um árabil. Við kaupin tók N1 við rekstri veitingastaðarins og verslunarinnar á staðnum.