Íslenski hlutabréfamarkaðurinn tók við sér í dag, eftir miklar lækkanir á undanförnum vikum. OMXI10 úrvalsvísitalan hafði, fyrir daginn í dag, lækkað um 12% frá því að Rússar lýstu yfir sjálfstæði héraðanna Donetsk og Luhansk í austurhluta Úkraínu þann 21. febrúar.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 2,2% í dag og stendur í 2.916,10 stigum, en gengi allra félaga á aðalmarkaði hækkaði í viðskiptum dagsins. Kvika banki hækkaði mest allra félaga, um 4,85%. Mest velta var jafnframt með bréf Kviku, en viðskipti með bréfin námu rúmum 1,1 milljörðum króna. Heildarvelta á aðalmarkaði nam rúmum 5 milljörðum króna.

Gengi bréfa Arion hækkaði um 2,65%, en viðskipti með bréfin námu tæpum milljarði króna. Flugfélagið Icelandair hækkaði nokkuð í dag, eða um 4% í 600 milljóna viðskiptum. Gengi félagsins stendur í 1,56 krónum á hlut og hefur lækkað um tæp 30% á síðastliðnum þremur vikum.

Sjá einnig: Evrópskir markaðir opna grænir

Evrópskir markaðir tóku enn meira við sér í viðskiptum dagsins. Stoxx Europe 600 vísitalan hækkaði um rúm 4% í dag. Auk þess hækkaði franska CAC 40 vísitalan um rúm 7% í dag og fór þýska DAX vísitalan upp um 8%. Breska FTSE 100 vísitalan er auk þess upp um 3,25% í dag.