Kynnisferðir, sem starfa undir vörumerkinu Icelandia, hafa nú eignast köfunarfyrirtækið Dive.is, sem sérhæfir sig í köfunar- og snorklferðum í Silfru auk þess að bjóða upp á námskeið í köfun, að fullu.

Félagið átti áður 51% hlut í fyrirtækinu en hefur nú gengið frá kaupum á eftirstandandi hlutafé af Tobias Klose, að því er segir í tilkynningu. Meðal annarra félaga í samstæðu Icelandia/Kynnisferða eru Icelandic Mountain Gui­des, Ice­land Rovers, Flybus, Activity Iceland og Enterprise Rent-a-Car.

Björn Ragnarsson, forstjóri Icelandia, segir það mikið fagnaðarefni að fá teymi Dive.is yfir en upplifunin sem fyrirtækið hafi skapað gestum sínum væri eftirtektarverð og hvetjandi fyrir alla sem starfa í ferðaþjónustu.

Dive.is velti 575 milljónum króna í fyrra og störfuðu að jafnaði 24 starfsmenn hjá félaginu en framkvæmdastjóri fyrirtækisins er Höskuldur Elefsen.

„Það er búið að vera gríðarlega spennandi að fylgjast með og taka þátt í uppbyggingu Icelandia og samþættingu á allri þeirri þjónustu sem fellur undir það vörumerki. Með þessu skrefi mun rekstur okkar samþættast enn frekar rekstri Icelandia sem mun færa okkur aukinn slagkraft í okkar starfi,“ segir Höskuldur.

Félagið er í efsta sæti á Tripadvisor yfir fyrirtæki sem bjóða uppá afþreyingu frá Reykjavík og er þar með meira en tólf þúsund fimm stjörnu umsagnir. Dive.is er auk þess fimm stjörnu PADI köfunarskóli sem kennir flest þurrbúninganámskeið á ári í allri Evrópu.

Höskuldur Elefsen, framkvæmdastjóri Dive.is.
© Aðsend mynd (AÐSEND)