Stofnandi bresku leikfangaverslunarinnar The Entertainer hefur ákveðið að gefa frá sér reksturinn en 1900 starfsmenn verslunarinnar taka við stjórntaumunum frá og með næsta mánuði.
Stofnandinn, Gary Grant, opnaði fyrstu Entertainer verslunina árið 1981 og hefur fyrirtækið verið í eigu fjölskyldunnar frá þeim tíma en í dag eru verslanirnar 160 talsins. Þá er fyrirtækið í samstarfi við stórmarkaði á borð við Tesco þar sem leikföng fyrirtækisins eru til sölu.
Grant sagði í samtali við BBC að fjölskyldan vildi leyfa öðrum að taka við keflinu frekar en að selja reksturinn í gróðaskyni. Í skiptum fyrir reksturinn mun fjölskyldan fá hluta af hagnaði fyrirtækisins yfir ákveðið tímabil. Á rekstrarárinu sem lauk í lok janúar 2024 hagnaðist fyrirtækið um 6,7 milljónir punda fyrir skatt.