Lántöku­kostnaður breska ríkisins hefur ekki verið hærri í meira en aldar­fjórðung. Í morgun fór ávöxtunar­krafa 30 ára breskra ríkis­skulda­bréfa, svo­kallaðra gilts, upp í 5,70 pró­sent sem er hæsta gildi síðan 1998 áður en hún lækkaði ör­lítið niður í 5,68 pró­sent.

Hækkunin endur­speglar sam­spil aukinna áhyggja af fjár­málum ríkisins og hækkandi ávöxtunar­krafna víða um heim sam­kvæmt frétt Financial Times.

Þegar ávöxtunar­krafa hækkar lækkar verð skulda­bréfanna og láns­fjár­mögnun ríkisins verður dýrari.

Bret­land er nú með hæsta lántöku­kostnað ríkja í G7-hópnum, knúinn áfram af þrálátri verðbólgu og vaxandi skuldum hins opin­bera.

Jim Reid, yfir­maður greiningar­deildar Deutsche Bank, lýsir stöðunni sem „hæg­fara víta­hring þar sem áhyggjur af skuldum hækka ávöxtunar­kröfuna sem gerir skulda­vandann enn verri, sem síðan hækkar ávöxtunar­kröfuna enn frekar.“

Á sama tíma féll breska pundið um 1 pró­sent gagn­vart Bandaríkja­dal og um 0,4 pró­sent gagn­vart evru.

Francesco Peso­le, sér­fræðingur hjá ING, sagði fall gjald­miðilsins sýna „hversu tauga­veiklaður markaðurinn er þegar kemur að langtíma­bréfum“.

Ávöxtunar­krafa 10 ára ríkis­skulda­bréfa, sem fjár­festar fylgjast gjarnan mest með, hækkaði í 4,78 pró­sent en er þó enn undir 16 ára há­marki sem náðist í janúar þegar hún fór í 4,93 pró­sent.

Fjár­festar bíða spenntir eftir fjár­laga­frum­varpi fjár­málaráðherrans Rachel Ree­ves í haust. Hærri ávöxtunar­krafa hefur minnkað svigrúm ríkisins til að standa við eigin fjár­mála­reglur þar sem vaxta­kostnaður af ríkis­skuldum hækkar hratt.

Sér­fræðingar vara við að aukinn lántöku­kostnaður geti skert svigrúm fjárlaga úr 9,9 milljörðum punda í 5,3 milljarða ef þróunin heldur áfram.

Margir fjár­festar telja brýnt að stjórn­völd standi við fyrir­heit um aðhald í ríkis­fjár­málum til að koma í veg fyrir frekari sölu ríkis­skulda­bréfa.

Efna­hags­ráðgjafar búast við að skatta­hækkanir verði kynntar í haust til að styrkja ríkis­fjár­málin.

Seðla­banki Eng­lands hefur undan­farið verið að minnka efna­hags­reikning sinn með svo­kallaðri qu­antita­ti­ve tig­htening (QT), þar sem seld eru ríkis­skulda­bréf sem hann keypti í fjár­mála­kreppunni.

Sjóðs­stjórar vara nú við að þessi sala auki fram­boð og ýti þannig undir ávöxtunar­kröfu þeirra.

Mark Dowding, hjá RBC BlueBay Asset Mana­gement, sagði nýverið að fjár­festar væru farnir að efast um bæði trúverðug­leika peninga­stefnu og ríkis­fjár­mála Bret­lands.

„Ef stjórn­völd draga ekki úr út­gjöldum og QT heldur áfram gæti markaðurinn brugðist harka­lega,“ sagði hann.

Hækkandi ávöxtunar­krafa er ekki aðeins breskt fyrir­bæri. Þýsk 10 ára ríkis­skulda­bréf, svo­kölluð Bunds, hækkuðu í 0,03 pró­sentu­stiga ávöxtunar­kröfu á sama tíma og bandarísk 10 ára ríkis­skulda­bréf hækkuðu um 0,06 pró­sentu­stig.

Í Bandaríkjunum hafa áhyggjur af skulda­vanda og pólitískum deilum aukið þrýsting á ávöxtunar­kröfuna, á meðan þýsk stjórn­völd hafa til­kynnt stór­fellda aukningu í út­gjöldum til varnar­mála og inn­viða sem hefur einnig haft áhrif á langtíma­bréf þar í landi.