Lántökukostnaður breska ríkisins hefur ekki verið hærri í meira en aldarfjórðung. Í morgun fór ávöxtunarkrafa 30 ára breskra ríkisskuldabréfa, svokallaðra gilts, upp í 5,70 prósent sem er hæsta gildi síðan 1998 áður en hún lækkaði örlítið niður í 5,68 prósent.
Hækkunin endurspeglar samspil aukinna áhyggja af fjármálum ríkisins og hækkandi ávöxtunarkrafna víða um heim samkvæmt frétt Financial Times.
Þegar ávöxtunarkrafa hækkar lækkar verð skuldabréfanna og lánsfjármögnun ríkisins verður dýrari.
Bretland er nú með hæsta lántökukostnað ríkja í G7-hópnum, knúinn áfram af þrálátri verðbólgu og vaxandi skuldum hins opinbera.
Jim Reid, yfirmaður greiningardeildar Deutsche Bank, lýsir stöðunni sem „hægfara vítahring þar sem áhyggjur af skuldum hækka ávöxtunarkröfuna sem gerir skuldavandann enn verri, sem síðan hækkar ávöxtunarkröfuna enn frekar.“
Á sama tíma féll breska pundið um 1 prósent gagnvart Bandaríkjadal og um 0,4 prósent gagnvart evru.
Francesco Pesole, sérfræðingur hjá ING, sagði fall gjaldmiðilsins sýna „hversu taugaveiklaður markaðurinn er þegar kemur að langtímabréfum“.
Ávöxtunarkrafa 10 ára ríkisskuldabréfa, sem fjárfestar fylgjast gjarnan mest með, hækkaði í 4,78 prósent en er þó enn undir 16 ára hámarki sem náðist í janúar þegar hún fór í 4,93 prósent.
Fjárfestar bíða spenntir eftir fjárlagafrumvarpi fjármálaráðherrans Rachel Reeves í haust. Hærri ávöxtunarkrafa hefur minnkað svigrúm ríkisins til að standa við eigin fjármálareglur þar sem vaxtakostnaður af ríkisskuldum hækkar hratt.
Sérfræðingar vara við að aukinn lántökukostnaður geti skert svigrúm fjárlaga úr 9,9 milljörðum punda í 5,3 milljarða ef þróunin heldur áfram.
Margir fjárfestar telja brýnt að stjórnvöld standi við fyrirheit um aðhald í ríkisfjármálum til að koma í veg fyrir frekari sölu ríkisskuldabréfa.
Efnahagsráðgjafar búast við að skattahækkanir verði kynntar í haust til að styrkja ríkisfjármálin.
Seðlabanki Englands hefur undanfarið verið að minnka efnahagsreikning sinn með svokallaðri quantitative tightening (QT), þar sem seld eru ríkisskuldabréf sem hann keypti í fjármálakreppunni.
Sjóðsstjórar vara nú við að þessi sala auki framboð og ýti þannig undir ávöxtunarkröfu þeirra.
Mark Dowding, hjá RBC BlueBay Asset Management, sagði nýverið að fjárfestar væru farnir að efast um bæði trúverðugleika peningastefnu og ríkisfjármála Bretlands.
„Ef stjórnvöld draga ekki úr útgjöldum og QT heldur áfram gæti markaðurinn brugðist harkalega,“ sagði hann.
Hækkandi ávöxtunarkrafa er ekki aðeins breskt fyrirbæri. Þýsk 10 ára ríkisskuldabréf, svokölluð Bunds, hækkuðu í 0,03 prósentustiga ávöxtunarkröfu á sama tíma og bandarísk 10 ára ríkisskuldabréf hækkuðu um 0,06 prósentustig.
Í Bandaríkjunum hafa áhyggjur af skuldavanda og pólitískum deilum aukið þrýsting á ávöxtunarkröfuna, á meðan þýsk stjórnvöld hafa tilkynnt stórfellda aukningu í útgjöldum til varnarmála og innviða sem hefur einnig haft áhrif á langtímabréf þar í landi.