Sterkt raungengi og hækkun skatta og gjalda mun gera róðurinn þungann hjá útflutningsfyrirtækjum á komandi misserum. Hagfræðin og sagan kennir okkur að aðlögun gengis er líkleg og þá mun ástandið fljótt breytast. Sérstaklega hjá þeim fyrirtækjum þar sem vaxtartækifærin eru mest líkt og í fiskeldi.

Þetta kemur fram í viðauka nýs verðmats Jakobsson Capital á laxeldisfyrirtækinu Kaldvík, þar sem sjónum er beint að háu raungengi krónunnar og samkeppnishæfni útflutningsfyrirtækjanna hér á landi.

Í viðaukanum er bent á að róðurinn sé þungur hjá útflutningsfyrirtækjum og tíðar lækkanir á verðmati útflutningsfyrirtækja og fyrirtækja með tekjur í erlendri mynt. Samdráttur líkt og hjá flugfélaginu Play, rekstrarstöðvun hjá BakkaSilicon sé ein birtingarmynd þungrar samkeppnisstöðu.

Loft, skýjaborgir og norðurljósin

„Á sama tíma og róðurinn er þungur er gott að vera Íslendingur á golfvöllunum á Spáni og í Flórída. Frasarnir á fjármálamarkaði eru þeir sömu og voru fyrir 20 árum. Það eru fáir á fjármálamarkaði nú sem unnu á íslenskum fjármálamarkaði fyrir 20 árum og enn færri í efnahagsgreiningu og á skuldabréfamarkaði,“ segir í viðaukanum og bent á að raungengi krónunnar sé nú á svipuðum slóðum og það var rétt fyrir bankahrun.

Snorri Jakobsson, eigandi Jakobsson Capital.
© Arnþór Birkisson (Arnþór Birkisson)

„Þótt vissulega hafi komið einn og einn mánuður á síðustu árum þar sem raungengið hefur verið svipað og nú. Gengið hefur þó ávallt veikst jafnharðan aftur. Það virðist fátt vinna með sterku gengi krónunnar til lengri tíma þótt til skamms tíma getur spákaupmennska styrkt gengi krónunnar verulega. Þótt blikur séu á lofti er mjög ólíklegt að jafn hröð og mikil gengisveiking verði líkt og var í aðdraganda bankahrunsins.  Erlend staða þjóðarbúsins er allt önnur nú en var fyrir tæplega 20 árum.“

Þrátt fyrir það sé erfitt að sjá hvaða raunstærðir eigi að styrkja nafngengi krónunnar nema loft, skýjaborgir og norðurljósin. „Það eru ekki aukin verðbólga og yfirvofandi launahækkanir og spenna á vinnumarkaði. Hvað þá aflaheimildir loðnu, „aflabrestur“ í bolfiski, samdráttur í framboði flugferða til Íslands eða afleiðingar tollastríðs sem hefur t.d.  afleidd áhrif á iðnaðarframleiðslu líkt og ál- og málmvinnslu,“ segir í viðaukanum í verðmati Jakobsson Capital á Kaldvík.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.