Verslunin Ríteil Kids opnaði í Holtagörðum fyrr í þessum mánuði og er rekin af sömu fjölskyldu og stendur fyrir versluninni Ríteil í Smáratorgi. Sú verslun opnaði í mars í fyrra og til að byrja með bauð hún upp á bæði barnaföt og föt fyrir fullorðna.
Hjónin Þorsteinn Schweitz Þorsteinsson og Heba Brandsdóttir eru eigendur verslunarinnar ásamt börnunum sínum en þau eru Ragnheiður Eva Lárusdóttir, Daði Lárusson, Áslaug Sara Lárusdóttir, Andri Jónsson, Linda Björk Þorsteinsdóttir, Jakob Schweitz Þorsteinsson og Annie Schweitz Þorsteinsdóttir.
Þorsteinn segir að staðsetningin í Holtagörðum hafi hentað einstaklega vel. Rýmið hafi boðið upp á fullkomna stærð og aðgengi og svo var líka nóg til af bílastæðum sem væru þar að auki undir bílaþaki.
Verslunin hefur á örstuttum tíma upplifað gott flæði viðskiptavina í Holtagörðum en nærliggjandi svæðið hefur undanfarin misseri fengið töluverða andlitslyftingu. „Það er komin stór byggð hérna í næsta nágrenni og með tilkomu Bónuss og annarra verslana þá hefur svæðið breyst úr draugabæ í gott verslunarsvæði.“
Fjölskyldan leggur einnig mikla áherslu á sjálfbærni og endurnýtingu og segir Ragnheiður Eva að búðarborðin í Smáratorgi séu til að mynda öll frá fyrri leigjendum. Nokkrir smiðir hafi hjálpað til við setja upp grindurnar í nýju versluninni en fyrir utan það sá fjölskyldan um alla vinnu, uppsetningu og málun.
Ríteil Kids í Holtagörðum býður einnig upp á leiksvæði fyrir börnin og segja eigendur að þeim hafi fundist mjög mikilvægt að hafa það ásamt uppsetningarherbergi sem hefur ekki verið til staðar í slíkum verslunum. Þar fá seljendur sérrými til að setja á slá, gufustrauja og verðmerkja vörurnar í ró og næði. Bilið á milli bása er einnig mjög stórt og miðuðu eigendur við að þrír barnavagnar gætu komist fram hjá hvor öðrum á hverjum gangi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.