Ný rannsókn, sem The Wall Street Journal greinir frá, gefur til kynna að tími fram að gjald­daga hefur meira vægi fyrir áhættu skulda­bréfa­safna en láns­hæfis­ein­kunn eða upp­runa­land út­gefanda.

Skulda­bréfa­fjár­festar eiga það til að beina at­hygli sinni að láns­hæfis­ein­kunnum og þjóðerni út­gef­enda við áhættu­mat.

En ný 40 ára rannsókn bendir til að megin­áhættuþátturinn felist í líftíma skulda­bréfa – þ.e. tímanum sem eftir er þar til þau eru greidd upp (e. duration/time to matu­rity).

Langtímabréf mun sveiflukenndari

Þetta kemur fram í greiningu Derek Hor­st­meyers, pró­fessors við Geor­ge Mason-háskóla, sem segir að of lítið hafi verið hugað að líftíma skulda­bréfa við upp­byggingu fjár­festinga­safna.

Niður­stöður rannsóknarinnar sýna að löng skulda­bréf bera í för með sér mun meiri sveiflur en skammtíma­bréf, óháð láns­hæfi eða land­fræði­legri dreifingu.

Hor­st­meyer greindi ár­lega sveiflu (staðal­frávik) í ávöxtun skulda­bréfa­sjóða með mis­munandi meðallíftíma.

Þar kom í ljós að langtíma ríkis­skulda­bréf, með um 20 ára líftíma, höfðu meðaltali ár­lega sveiflu upp á 8,04% síðustu 40 ár.

Á sama tíma var sveiflan í skammtíma ríkis­skulda­bréfum (með 6 mánaða líftíma) einungis 1,10%.

Munurinn, 6,94 pró­sentu­stig, var meiri en sá sem fannst í saman­burði á láns­hæfi eða land­fræði­legri áhættu.

Þessar niður­stöður eru styrktar með því að skoða bilið milli 75. og 25. pró­sentu­marks í ávöxtun (e. interqu­arti­le spread), þar sem langtíma­bréf sýndu einnig tals­vert meiri sveiflu.

Þegar fjár­festinga­sjóðir í alþjóð­legum skulda­bréfum voru bornir saman við meðallöng bandarísk ríkis­bréf ( 6 ára líftíma), kom í ljós að sveiflur í ávöxtun voru 2,58 pró­sentu­stigum meiri í hinum alþjóð­legu.

Þetta er mun minna en sveiflurnar sem skýrðust af mis­munandi líftíma.

Sam­bæri­leg niður­staða kom fram í saman­burði á há­vaxta fyrir­tækja­bréfum (ein­kunn BBB- og neðar) og fyrir­tækja­bréfum með traust láns­hæfi: sveiflu­munurinn þar nam 1,71 pró­sentu­stigi – um­tals­vert minna en á milli langtíma og skammtíma ríkis­skulda­bréfa.

Á árinu 2022, þegar bandaríski seðla­bankinn hækkaði stýri­vexti hratt um 4 pró­sentu­stig, lækkuðu langtíma ríkis­skulda­bréfa­sjóðir um 30% að meðaltali.

Á sama tíma lækkuðu há­vaxta fyrir­tækja­bréfa­sjóðir einungis um 9%. Þessi þróun undir­strikar viðkvæmni langtíma­bréfa fyrir vaxta­breytingum – jafn­vel þegar um örugga skulda­bréfa­flokka er að ræða.

Í ljósi aukinnar óvissu á alþjóð­legum skulda­bréfa­mörkuðum – hvort sem litið er til vaxtaþróunar í Bandaríkjunum, efna­hags­óvissu í Evrópu eða aukins ríkisút­gjalda­kostnaðar – bendir rannsókn Hor­st­meyers til þess að skammtíma­skulda­bréf geti verið besta leiðin til að draga úr sveifluáhættu í skulda­bréfasöfnum.