Ný rannsókn, sem The Wall Street Journal greinir frá, gefur til kynna að tími fram að gjalddaga hefur meira vægi fyrir áhættu skuldabréfasafna en lánshæfiseinkunn eða upprunaland útgefanda.
Skuldabréfafjárfestar eiga það til að beina athygli sinni að lánshæfiseinkunnum og þjóðerni útgefenda við áhættumat.
En ný 40 ára rannsókn bendir til að megináhættuþátturinn felist í líftíma skuldabréfa – þ.e. tímanum sem eftir er þar til þau eru greidd upp (e. duration/time to maturity).
Langtímabréf mun sveiflukenndari
Þetta kemur fram í greiningu Derek Horstmeyers, prófessors við George Mason-háskóla, sem segir að of lítið hafi verið hugað að líftíma skuldabréfa við uppbyggingu fjárfestingasafna.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að löng skuldabréf bera í för með sér mun meiri sveiflur en skammtímabréf, óháð lánshæfi eða landfræðilegri dreifingu.
Horstmeyer greindi árlega sveiflu (staðalfrávik) í ávöxtun skuldabréfasjóða með mismunandi meðallíftíma.
Þar kom í ljós að langtíma ríkisskuldabréf, með um 20 ára líftíma, höfðu meðaltali árlega sveiflu upp á 8,04% síðustu 40 ár.
Á sama tíma var sveiflan í skammtíma ríkisskuldabréfum (með 6 mánaða líftíma) einungis 1,10%.
Munurinn, 6,94 prósentustig, var meiri en sá sem fannst í samanburði á lánshæfi eða landfræðilegri áhættu.
Þessar niðurstöður eru styrktar með því að skoða bilið milli 75. og 25. prósentumarks í ávöxtun (e. interquartile spread), þar sem langtímabréf sýndu einnig talsvert meiri sveiflu.
Þegar fjárfestingasjóðir í alþjóðlegum skuldabréfum voru bornir saman við meðallöng bandarísk ríkisbréf ( 6 ára líftíma), kom í ljós að sveiflur í ávöxtun voru 2,58 prósentustigum meiri í hinum alþjóðlegu.
Þetta er mun minna en sveiflurnar sem skýrðust af mismunandi líftíma.
Sambærileg niðurstaða kom fram í samanburði á hávaxta fyrirtækjabréfum (einkunn BBB- og neðar) og fyrirtækjabréfum með traust lánshæfi: sveiflumunurinn þar nam 1,71 prósentustigi – umtalsvert minna en á milli langtíma og skammtíma ríkisskuldabréfa.
Á árinu 2022, þegar bandaríski seðlabankinn hækkaði stýrivexti hratt um 4 prósentustig, lækkuðu langtíma ríkisskuldabréfasjóðir um 30% að meðaltali.
Á sama tíma lækkuðu hávaxta fyrirtækjabréfasjóðir einungis um 9%. Þessi þróun undirstrikar viðkvæmni langtímabréfa fyrir vaxtabreytingum – jafnvel þegar um örugga skuldabréfaflokka er að ræða.
Í ljósi aukinnar óvissu á alþjóðlegum skuldabréfamörkuðum – hvort sem litið er til vaxtaþróunar í Bandaríkjunum, efnahagsóvissu í Evrópu eða aukins ríkisútgjaldakostnaðar – bendir rannsókn Horstmeyers til þess að skammtímaskuldabréf geti verið besta leiðin til að draga úr sveifluáhættu í skuldabréfasöfnum.