Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, líkir þeirri sýn að upptaka evru muni sjálfkrafa leiða til lægri vaxta og minni verðbólgu hér á landi við töfrasprota sem virki yfirleitt ekki.

Þetta kemur fram í aðsendri grein Gunnars í Viðskiptablaði vikunnar, þar sem hann tekur fyrir einfaldar hugmyndir til að taka á efnahagslegum áskorunum á Íslandi.

Auk einfeldnislegrar umræðu um upptöku evru gagnrýnir Gunnar annar vegar hugmyndir um að breyta núvirðingarkröfu lífeyrissjóða með það fyrir augum að draga úr vægi verðtryggingar í hagkerfinu og hins vegar þau sjónarmið að afnám verðtryggingar af lánum til einstaklinga sé skynsamleg nálgun.

„Í raunheimum er stundum lagt til að flókin vandamál megi leysa með einföldum aðgerðum, líkt og með töfrasprota. Slíkar hugmyndir byggja oft á þeirri trú að ein lítil breyting geti valdið stórum umbrotum með lágmarksfyrirhöfn. En ólíkt ævintýrum eru í veruleikanum sjaldnast til neinar einfaldar töfralausnir við flóknum vandamálum.“

Gunnar bendir á að þeir sem styðji inngöngu í ESB rökstyðji mál sitt gjarnan á því að þá taki Ísland upp evru sem leiði af sér hagstæðara vaxtastig. Þannig gætu innlendir lántakendur sparað sér milljarða á ári og ráðstöfunartekjur hækkað samsvarandi.

„Þetta hljómar vel en gengur ekki upp ef vel er athugað,“ segir Gunnar. „Nafnvextir endurspegla yfirleitt tvennt: raunávöxtunarkröfu og vænta verðbólgu. Raunávöxtunarkrafan ræðst m.a. af efnahagsástandi og hækkar oft þegar hagvöxtur og umsvif aukast, þar sem eftirspurn eftir fjármagni eykst.

Vænt verðbólga hækkar einnig nafnvexti, þar sem markaðsaðilar krefjast vaxta sem vega upp á móti rýrnun kaupmáttar. Verðbólga stafar oft af mikilli eftirspurn eða kostnaðarhækkunum, t.d. vegna launa. Ef laun hækka meira en framleiðni til lengri tíma neyðast fyrirtæki oft til að hækka verð til að mæta auknum kostnaði.“

Gunnar segir að sú aðgerð ein og sér að taka upp evru leiði ekki sjálfkrafa til lækkunar vaxta nema hún hafi áhrif á efnahagslegar grunnstærðir á borð við umsvif í hagkerfinu og verðbólgu.

Hluti skýringar á því að vextir eru almennt hærri á Íslandi en á evrusvæðinu sé að hér hefur hagvöxtur, eftirspurn og umsvif verið meiri. Undanfarinn áratug hafi hagvöxtur að meðaltali verið 2,3 prósentustigum hærri á Íslandi en í Evrópu. Verðbólga hafi einnig verið hærri hérlendis, m.a. vegna þess að laun hækkuðu að jafnaði um 1% meira á Íslandi en í Evrópu, umfram verðbólgu.

„Upptaka evru myndi því aðeins leiða til lægri vaxta ef hún kæmi í kjölfar eða samhliða breytingum sem draga úr verðbólguþrýstingi – svo sem minni hagvexti, lægri framleiðslukostnaði og hóflegri launaþróun. Líkleg afleiðing slíkrar aðlögunar er minni fjárfesting og lægri kaupmáttur,“ segir Gunnar.

„Lágir vextir eru heldur ekki raunhæfur kostur í hagkerfi sem einkennist af miklum hagvexti og þenslu. Afleiðingin verður að öllum líkindum yfirsnúningur sem fyrr eða síðar endar með bakslagi og mögulega harðri lendingu.“