Til harðra orðaskipta kom á milli Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, og þingmanna Viðreisnar um veiðigjöld undir liðnum fundarstjórn forseta á Alþingi í dag.

Umræðan hófst á fyrirspurn Sigmars Guðmundssonar, formanns Viðreisnar, um hvort rétt væri að hækka veiðigjöld.

Lilja sagði að sjávarútveginum hefði gengið mjög vel, meðal annars vegna tækniframfara og það væri hennar skoðun að fara þyrfti betur yfir málefni útgerðarinnar. Útgerðin væri ein af þeim atvinnugreinum sem þyrfti að skila samfélaginu meiri arði og hún taldi að greinin væri sjálf á þeirri skoðun. Það sama ætti t.d. við um bankakerfið sem hún hafi nýlega kallað eftir.

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, sagði svör Lilju vera óþarflega loðin. Hann sagði að þingmeirihluti lægi fyrir því að hækka veiðigjöld og vildi skýr svör um hvernig taka ætti á málum.

Lilja steig í kjölfarið aftur upp í pontu. „Það er svolítið gaman að vera hérna þegar menn verða svekktir. Mér finnst eins og Sigmar Guðmundsson hafi verið svekktur, því að þetta var býsna skýrt og öflugt svar hjá viðskiptaráðherranum," sagði Lilja og uppskar hlátur úr þingsal.

„Heyrið þið hvernig liðið lætur, formaður Viðreisnar enn og aftur, eins ómálefnaleg og hún er nú. Ég vil bara koma þessu á framfæri hér, ég vil bara gera það, en það sem ég vildi segja við. Má ég tala, enn og aftur byrjar formaður Viðreisnar, ræður ekki við sig, ræður ekki við sig. Það sem ég vildi segja, já við munum beita okkur. Það höfum við sannarlega gert og munum gera," sagði Lilja.

„Það sem ég held að gerast hjá Viðreisn, hún er bara einfaldlega stressuð. Það er verið að taka forystu í málaflokkum sem skipta þjóðina máli í sjávarútvegi og ég minni á það að Viðreisn og formaður Viðreisnar, hún var sjávarútvegsráðherra, og hvað gerði hún? Ekkert, ekkert!," sagði Lilja og barði í pontu.

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, tók í kjölfarið til máls og gerði athugasemdir við málflutning Lilju. „Vegna framkomu hennar við þingmann Viðreisnar, Sigmar Guðmundsson, sem að kemur hér upp og nýtir sér þann dagskrárlið sem er óundirbúnar fyrirspurnir til að koma með fullkomlega málefnalegar og eðlilega fyrirspurn til ráðherra. Ráðherra er ófær um að svara þeirri fyrirspurn, að því er virðist vegna persónulegrar óvildar í garð formanns Viðreisnar, óvildar sem hún verður sjálf ráðherrann að svara fyrir hvaðan er sprottin, sagði Hanna Katrín og sló í pontu og var nokkuð heitt í hamsi.

„En þessi framkoma hér í þingsal þegar verið er að ræða málefni sem varða þing og þjóð er algjörlega óboðleg. Nú er það svo er að þessi ráðherra sem hér um ræðir er ekki beint í fararbroddi þeirra sem hafa lyft veg og virðingu Alþingis sem mest, en frú forseti það eru einhver takmörk, og ég hefði gjarnan vilja sjá forseta grípa inn í þessa óhæfu áðan," sagði Hanna Katrín og beindi orðum sínum að Líneik Önnu Sævarsdóttur, annars varaforseta Alþingsins, sem sat í sæti forseta.

Lilja steig aftur í pontu og sagði hafa svarað Sigmari. Hennar skoðun væri að auka þyrfti gjaldtöku á fyrirtæki sem skiluðu ofurhagnaði. „Þetta var mjög skýrt en ég held hins vegar að þessi persónulega óvild væri fremur hjá þingflokki Viðreisnar í garð ráðherrans. Ég hef bara sjaldan séð háttvirtan þingmann jafn æsta og þegar hún kemur hingað í pontu, annað hvort að spyrja háttvirtan ráðherra út í einhver málefni.

Þá heyrðist kallað úr þingsal. „Hvað er ráðherra að tala um?"

„Má ég svara? ég er að fara yfir það, háttvirtur þingmaður, að ég svaraði fyrirspurninni málefnalega, og var búinn að undirbúa þann málflutning mjög vel," sagði Lilja

Fleiri þingmenn stjórnarandstöðunnar tóku í kjölfarið til máls og gagnrýndu málflutning Lilju og að hún hafi gengið út úr þingsalnum. Þar á meðal Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar. Hanna Katrín kom þá aftur upp í pontu og sagðist vera miður sín yfir ummælum Lilju, ekki fyrir hönd Þorgerðar Katrínar, heldur fyrir hönd Alþingis.