Íslenska matvælafyrirtækið Good Good hefur ráðið Lóu Fatou Einarsdóttur sem forstöðumann rekstrarsviðs í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Reykjavík, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Lóa Fatou kemur frá 66°Norður þar sem hún hefur starfað undanfarin ár sem forstöðumaður rekstrarsviðs og var m.a. ábyrg fyrir samþættingu virðiskeðju félagsins ásamt rekstri vöruhúsa. Áður starfaði hún sem sérfræðingur í gæða- og ferlamálum hjá Nóa Síríusi.

Lóa Fatou er með M.Sc. í rekstrarverkfræði frá DTU Kaupmannahöfn og B.Sc. gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.

Lóa Fatou Einarsdóttir:

„Good Good er ört stækkandi félag á hraðri og spennandi vegferð. Ég hef fylgst með fyrirtækinu frá upphafi og hlakka til að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu þess ásamt framúrskarandi hópi samstarfsfólks.“

Garðar Stefánsson, forstjóri Good Good:

„Það að fá Lóu Fatou í okkar teymi er mikill fengur fyrir fyrirtækið. Verandi alþjóðlegt fyrirtæki, þar sem bæði birgjar og viðskiptavinir eru dreifðir að mestu í Evrópu og Norður Ameríku, er það  lykilatriði að styrkja og efla ferla, tryggja sveigjanleika í rekstrinum, koma í veg fyrir sóun og hámarka verðmæti. Ráðning Fatou mun styrkja reksturinn okkar enn frekar og auka skilvirkni Good Good.“

Good Good er íslenskt sprotafyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun og framleiðslu á matvælum án viðbætts sykurs, þá sérstaklega í morgunmats og dögurðar (e. brunch) matvörum. Vöruframboðið samanstendur m.a. af sultum, hnetu- og súkkulaðismyrjum, sætuefnum, stevíu-dropum, sýrópi, bökunarvörum og keto-börum.

Sjá einnig: Good good sækir 260 milljónir til viðbótar

Alls starfa fimmtán starfsmenn hjá Good Good, þar af tíu í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Reykjavík, þrír í Bandaríkjunum, einn í Bretland og einn í Úkraínu.

Öll vöruþróun, sölu og markaðsstarf, stýring aðfangakeðjunnar og gæðamál fara fram á Íslandi. Framleiðsla varanna fer hins vegar fram í Hollandi og Belgíu og er vörunum þaðan dreift í gegnum vöruhús fyrirtækisins í Tilburg í Hollandi, Virginiu í Bandaríkjunum og Ontario í Kanada. Vörur fyrirtækisins fást í dag í rúmlega 12.500 verslunum í 18 löndum.