Þýska flugfélagið Lufthansa hefur ákveðið að hætta að fljúga til höfuðborgar Írans tímabundið vegna aukinnar áhættu á svæðinu. Bandarískir embættismenn sögðu nýlega að árás af hálfu Írana á Ísrael gæti verið yfirvofandi.

Samkvæmt WSJ hefur Lufthansa tilkynnt að það muni aflýsa öllum flugferðum til og frá Tehran fram á laugardag en búið var að stöðva flug sem átti að fara til Íran í síðustu viku líka.

„Öryggi viðskiptavina okkar og áhafnarmeðlima er í forgangi hjá Lufthansa,“ segir talsmaður flugfélagsins og bætir við að verið sé að fylgjast grannt með gangi mála í Miðausturlöndunum.

Ákvörðunin kemur degi eftir að bandarísk yfirvöld sögðu að Íran eða skæruliðahreyfingar undir þeirra umsjá gætu gert árás á Ísrael í hefndarskyni fyrir árás á íranska ríkisbyggingu í Damaskus í Sýrlandi í síðustu viku en árásin varð æðsta embættismanni íranska hersins að bana.

Hingað til hefur Lufthansa flogið daglega til Imam Khomeini-alþjóðaflugvallarins í Tehran nema á þriðjudögum og föstudögum.