Bandarískir og evrópskir hluta­bréfa­markaðir voru á upp­leið í morgun í kjölfar þess að til­kynnt var um nýjan tolla­samning milli Bandaríkjanna og Evrópu­sam­bandsins um helgina.

Fram­virkir samningar með helstu vísitölur í Bandaríkjunum eru á upp­leið en hluta­bréf í hátækni­fyrir­tækjum og orku­fram­leiðendum leiddu hækkunina.

Sam­kvæmt Wall Street Journal líta fjár­festar samninginn jákvæðum augum þar sem hann dregur úr óvissu um yfir­vofandi við­skipta­stríð.

Samningurinn kemur í kjölfar sam­bæri­legs sam­komu­lags Bandaríkjanna við Japan og felur í sér að flestar út­flutnings­vörur frá ESB til Bandaríkjanna, þar með taldir bílar og lyf, verði lagður 15% tollur á.

Á móti hefur ESB samþykkt að kaupa orku frá Bandaríkjunum fyrir 750 milljarða dollara og fjár­festa fyrir 600 milljarða til viðbótar í bandarískt at­vinnulíf, meðal annars með vopna­kaupum.

Á meðan samningurinn varpar ljósi á vilja stjórn­valda til að forðast við­skipta­stríð hefur hann verið gagn­rýndur víða.

Nokkur aðildarríki ESB og hags­muna­samtök hafa mót­mælt því sem þau kalla ósann­gjarnt sam­komu­lag.

Financial Times greinir frá því að iðnaðar­samtök Þýska­lands hafi kallað samninginn „ófullnægjandi málamiðlun“ sem sendi „af­drifarík skila­boð“ til at­vinnulífs beggja vegna At­lants­hafsins. Þá sagði franski við­skiptaráðherrann Laurent Saint Martin í út­varps­viðtali að samningurinn væri „ekki í jafn­vægi“ og hvatti ESB til að halda áfram að þrýsta á betri kjör, einkum í þjónustu­geiranum.

Þrátt fyrir gagn­rýnina náði Stoxx Europe 600-vísi­talan fjögurra mánaða há­marki í morgun eftir um 1% hækkun.

Vísitölur í Þýska­landi og Frakk­landi fylgdu í kjölfarið með um­tals­verðum hækkunum, og fram­virkir samningar með S&P 500 í Bandaríkjunum bentu til opnunar með um 0,5% hækkun.

Sam­hliða lækkaði evran gagn­vart dollara, sem fjár­festar túlkuðu sem merki um að vaxandi eftir­spurn eftir bandarískum eignum og út­flutningi hafi styrkt stöðu Bandaríkja­dala.

Efna­hags­leg áhrif samningsins verða lík­lega um­deild næstu daga, en fjár­festar virðast í bili fagna því að ein­hver stað­festing hafi fengist á stefnu Trumps eftir um­deilda tolla­til­kynningu hans í apríl.

Hins vegar gæti áfram­haldandi gagn­rýni innan ESB sett þrýsting á fram­kvæmda­stjórnina að endur­skoða skilmála samningsins, einkum ef þjónustuút­flutningur ESB verður áfram úti­lokaður frá frekari um­ræðu.