Bandarískir og evrópskir hlutabréfamarkaðir voru á uppleið í morgun í kjölfar þess að tilkynnt var um nýjan tollasamning milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins um helgina.
Framvirkir samningar með helstu vísitölur í Bandaríkjunum eru á uppleið en hlutabréf í hátæknifyrirtækjum og orkuframleiðendum leiddu hækkunina.
Samkvæmt Wall Street Journal líta fjárfestar samninginn jákvæðum augum þar sem hann dregur úr óvissu um yfirvofandi viðskiptastríð.
Samningurinn kemur í kjölfar sambærilegs samkomulags Bandaríkjanna við Japan og felur í sér að flestar útflutningsvörur frá ESB til Bandaríkjanna, þar með taldir bílar og lyf, verði lagður 15% tollur á.
Á móti hefur ESB samþykkt að kaupa orku frá Bandaríkjunum fyrir 750 milljarða dollara og fjárfesta fyrir 600 milljarða til viðbótar í bandarískt atvinnulíf, meðal annars með vopnakaupum.
Á meðan samningurinn varpar ljósi á vilja stjórnvalda til að forðast viðskiptastríð hefur hann verið gagnrýndur víða.
Nokkur aðildarríki ESB og hagsmunasamtök hafa mótmælt því sem þau kalla ósanngjarnt samkomulag.
Financial Times greinir frá því að iðnaðarsamtök Þýskalands hafi kallað samninginn „ófullnægjandi málamiðlun“ sem sendi „afdrifarík skilaboð“ til atvinnulífs beggja vegna Atlantshafsins. Þá sagði franski viðskiptaráðherrann Laurent Saint Martin í útvarpsviðtali að samningurinn væri „ekki í jafnvægi“ og hvatti ESB til að halda áfram að þrýsta á betri kjör, einkum í þjónustugeiranum.
Þrátt fyrir gagnrýnina náði Stoxx Europe 600-vísitalan fjögurra mánaða hámarki í morgun eftir um 1% hækkun.
Vísitölur í Þýskalandi og Frakklandi fylgdu í kjölfarið með umtalsverðum hækkunum, og framvirkir samningar með S&P 500 í Bandaríkjunum bentu til opnunar með um 0,5% hækkun.
Samhliða lækkaði evran gagnvart dollara, sem fjárfestar túlkuðu sem merki um að vaxandi eftirspurn eftir bandarískum eignum og útflutningi hafi styrkt stöðu Bandaríkjadala.
Efnahagsleg áhrif samningsins verða líklega umdeild næstu daga, en fjárfestar virðast í bili fagna því að einhver staðfesting hafi fengist á stefnu Trumps eftir umdeilda tollatilkynningu hans í apríl.
Hins vegar gæti áframhaldandi gagnrýni innan ESB sett þrýsting á framkvæmdastjórnina að endurskoða skilmála samningsins, einkum ef þjónustuútflutningur ESB verður áfram útilokaður frá frekari umræðu.