Hlutabréfaverð flugfélagsins Play hefur lækkað um 33% það sem af er degi og stendur nú í 0,4 krónum á hlut. Markaðsvirði flugfélagsins nemur nú 756 milljónum króna.
Til samanburðar nam markaðsvirðið 1,13 milljörðum króna við lokun markaða í gær en dagslokagengi flugfélagsins stóð þá í 0,60 krónum á hlut og hafði aldrei verið lægra.
Þrátt fyrir þessa miklu lækkun er félagið þó langt frá því að vera í brottfallshættu samkvæmt skráningarreglum Kauphallarinnar.
Samkvæmt upplýsingum frá Nasdaq færist félag á athugunarlista ef markaðsvirði þess helst undir 1 milljón evra, eða um 143 milljónum króna á núverandi gengi, til lengri tíma.
Samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins þyrfti hlutabréfaverð Play að lækka úr 0,4 krónum niður í 0,0756 krónur á hlut til að markaðsvirðið félli undir 143 milljónir króna. Það jafngildir lækkun um 0,3244 krónur á hlut, eða um 81% lækkun frá núverandi gengi.
Sótt 21 milljarð frá upphafi
Play sótti ríflega 6 milljarða króna í lokuðu hlutafjárútboði í apríl 2021 og um 4,3 milljarða króna í almennu hlutafjárútboði í aðdraganda skráningar á íslenska First North-markaðinn sumarið 2021, þar sem útboðsverð var 18 krónur fyrir almenna fjárfesta og 20 krónur fyrir stærri fjárfesta.
Þá tryggði flugfélagið sér 2,3 milljarða króna í nýtt hlutafé í nóvember 2022 þar sem útgáfugengið var 14,6 krónur á hlut. Play lauk svo 4,6 milljarða króna hlutafjáraukningu í apríl 2024 þar sem útgáfuverðið var 4,6 krónur á hlut. Flugfélagið færði sig í kjölfarið af First North-markaðnum yfir á aðalmarkað Kauphallarinnar í ágúst 2024.
Á núverandi verðlagi hefur Play alls sótt um 21 milljarð króna í nýtt hlutafé frá fyrsta rekstrarárinu 2021. Til samanburðar nam uppsafnað tap flugfélagsins í lok mars síðastliðnum tæplega 202 milljónum dala, eða sem nemur nærri 25 milljörðum króna á núverandi gengi krónunnar.
Eigið fé Play var neikvætt um 60,4 milljónir dala eða um 8 milljarða króna í lok fyrsta ársfjórðungs.
Play tilkynnti þann 8. júlí síðastliðinn að það hefði tryggt sér bindandi skilyrt áskriftarloforð um kaup fjárfesta á breytanlegu skuldabréfi að samanlögðu andvirði 2.425 milljónir króna, eða um 20 milljónir dala.
Gjalddagi breytanlegu skuldabréfanna er 24 mánuðum eftir útgáfudag. Breytanlegu skuldabréfin munu bera 17,5% fasta vexti og verður skuldabréfaeigendum heimilt að umbreyta þeim í hlutabréf á genginu 1 króna á hlut.
Samhliða tilkynnti Play um að fjárfestahópur - sem var leiddur af Einari Erni Ólafssyni, forstjóra Play og Elías Skúla Skúlasyni, varaformanni stjórnar flugfélagsins, leiddu - sem hafði í síðasta mánuði boðað yfirtökutilboð á tilboðsverðinu 1,0 krónu á hlut, hefði fallið frá áformunum.