Heildarmarkaðsvirði skráðra félaga á Aðalmarkaði og Nasdaq First North á Íslandi lækkaði um 98 milljarða króna í ágúst og stóð í 2.392 milljörðum króna í lok mánaðar, samanborið við 2.490 milljarða í lok júlí.
Þetta kemur fram í mánaðarlegu viðskiptayfirliti Nasdaq Iceland sem birt var í dag.
Úrvalsvísitalan OMXI15 lækkaði um 4,6% í ágúst og stendur nú í 2.562 stigum. Heildarvísitalan OMXIPI lækkaði um 3,7% og stendur í 2.044 stigum.
Íslandsbanki með mesta veltu
Heildarviðskipti með hlutabréf í ágúst námu 46 milljörðum króna, eða 2.290 milljónum á dag. Það er 18,6% minni velta en í júlí og 33% minni en í ágúst 2024.
Mest viðskipti í ágúst voru með bréf Íslandsbanka, samtals fyrir 12 milljarða króna, en næst kom Arion banki með 5,5 milljarða og þar á eftir Alvotech með 3,9 milljarða.
Alls voru viðskipti með hlutabréf 7.765 talsins í mánuðinum, sem er 19% fækkun frá júlí en 41% aukning frá sama mánuði í fyrra.
Meiri velta á skuldabréfamarkaði
Á meðan hlutabréfamarkaðurinn lækkaði jókst velta með skuldabréf umtalsvert milli mánaða.
Heildarviðskipti með skuldabréf námu 117 milljörðum króna í ágúst, sem er 34,4% aukning frá júlí. Aðalvísitala skuldabréfa, NOMXIBB, hækkaði um 0,9% í mánuðinum.
Á skuldabréfamarkaði var Íslandsbanki með mestu hlutdeildina, 22%, Landsbankinn með 18,3% og Fossar fjárfestingarbanki þar á eftir með 17,1%.
Aðalvísitala skuldabréfa (NOMXIBB) hækkaði um 0,9% í mánuðinum og stendur nú í 1.920 stigum. Óverðtryggða skuldabréfavísitala Kauphallarinnar (NOMXINOM) hækkaði um 1% og sú verðtryggða (NOMXIREAL) hækkaði um 0,8%.