Meirihluti landsmanna telur vel hafa verið staðið að útboði og sölu á eftirstandandi 45% hlut ríkisins í Íslandsbanka um miðjan maímánuð, eða rúmlega 64% á móti tæplega 15% sem telja hafa verið illa staðið að henni. Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup.
Til samanburðar töldu 6% hafa verið vel staðið að útboði Bankasýslu ríkisins á 22,5% hlut í bankanum í mars 2022 en ríflega 87% illa.

Þau sem kysu Viðreisn eða Samfylkinguna ef kosið yrði til Alþingis í dag telja helst að vel hafi verið staðið að sölunni í maí, eða 79% og 84% hjá hvorum flokki um sig, á meðan þau sem kysu Miðflokkinn telja helst að illa hafi verið staðið að henni eða 37%.
Um 58% kjósenda Sjálfstæðisflokksins töldu að vel hafi verið staðið að sölunni, en 20% töldu að illa hafi verið staðið að henni.
Í Þjóðarpúlsinum segir að eins og fyrir þremur árum telji karlar frekar en konur að vel hafi verið staðið að útboði og sölu á hlut ríkisins í bankanum. Íbúar höfuðborgarsvæðisins telji frekar en íbúar landsbyggðarinnar að vel hafi verið staðið að sölunni. Þau sem hafa framhalds- eða háskólapróf telja frekar að vel hafi verið staðið að sölunni en þau sem hafa minni menntun að baki.

Niðurstöður sem hér birtast eru úr netkönnun Gallup sem gerð var dagana 26. júní til 14. júlí 2025. Heildarúrtaksstærð var 1.846 og þátttökuhlutfall var 45,7%.
Útboð á hlut ríkisins í Íslandsbanka stóð yfir 13. - 15. maí sl. Ríkið átti fyrir 805 milljón hluti eða um 45,2% af útistandandi hlutum í bankanum. Upphaflega stóð til að selja allt að 20% hlut ríkisins í bankanum en útboðið var í kjölfarið stækkað og náði þá til allra hluta ríkissjóðs.
Heildareftirspurn útboðsins nam alls um 190 milljörðum króna. Tilboð í tilboðsbók A, sem var í forgangi, námu samtals 88,2 milljörðum króna eða sem samsvarar um 97,4% af heildarvirði útboðsins. Tilboðsbók A var eingöngu ætluð einstaklingum með íslenska kennitölu og tóku um 31 þúsund einstaklingar þátt í útboðinu. .