Helmingur félaganna tuttugu á aðallista Kauphallarinnar skilaði methagnaði á síðasta ári. Samanlagt var hagnaður félaganna tuttugu sem eru á aðallista kauphallarinnar yfir 150 milljarðar króna í fyrra, sem er það mesta frá árinu 2015 að raunvirði. Hagnaður félaganna er álíka og samanlagður hagnaður áranna 2020 til 2018 samanlagt.

Mikið tap Icelandair litar niðurstöðuna þó nokkuð, en félagið tapaði 13 milljörðum á síðasta ári og 51 milljarði króna árið 2020. Sé horft framhjá afkomu Icelandair er samanlagður hagnaður hinna kauphallarfélaganna nítján sá mesti í meira en áratug.

Góður gangur á fjármálamarkaði

Ástæðurnar fyrir góðri afkomu í fyrra eru æði misjafnar. Fimm af félögunum tuttugu starfa á fjármálamarkaði. Þau nutu góðs af hækkun hlutabréfaverðs og aukinna umsvifa á mörkuðum sökum vaxtalækkana og aukins sparnaðar. Þannig skiluðu tryggingarfélögin tvö Sjóvá og VÍS methagnaði og yfir 40% arðsemi. Arðsemi Kviku banka var 35% í metári. Kvika hagnaðist um 10,7 milljarða í fyrra eftir að hafa sameinast TM á árinu. Íslandsbanki og Arion banki skiluðu svo bæði bestu afkomu sinni frá árinu 2015.

Bankarnir tveir högnuðust samanlagt um 52 milljarða króna miðað við 19 milljarða árið 2020. Hins vegar þarf að hafa í huga að þó nokkuð af hagnaði bankanna árið 2021 er tilkomið vegna endurmats á lánasafni þeirra. Árið 2020, í upphafi heimsfaraldursins, voru lánasöfnin færð niður vegna væntinga um samdrátt hjá heimilum og fyrirtækjum, sér í lagi í ferðaþjónustunni. Afkoma bankanna varð því heldur rýr árið 2020. Heimsfaraldurinn hefur hins vegar haft minni áhrif en vænst var og því voru lánasöfnin færð upp á ný á síðasta ári, sem skapar bókhaldslegan hagnað án þess að fé hafi skipt um hendur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .