Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Ferðaklasans, er meðal kvenna sem koma munu fram á UAK deginum, sem Ungar athafnakonur standa fyrir og haldinn verður í Hörpu næstkomandi laugardag undir yfirskriftinni Forysta til framtíðar.

Ásta mun ásamt Höllu Helgadóttur, framkvæmdastjóra Hönnunarmiðstöðvar Íslands, halda fyrirlesturinn Að skapa tækifæri framtíðar. Hún segir að hjá sér verði áherslan á hvernig ná megi árangri til lengri tíma með því að tileinka sér ákveðin tól og tæki og ákveðinn hugsunarhátt.

„Hvernig kveikirðu á þessum neista til að vinna af heilindum fyrir fyrirtækið þitt þannig að þú sért ekki alltaf að eltast við skammtímagróða, heldur sért að byggja upp sjálfbærni fyrirtækisins þannig að þú getir rekið það til lengri tíma?“

Innblásturinn sem Ásta segist vilja að áheyrendur gangi út með er að þær hafi allt sem þær þurfi til að skapa sér þau tækifæri sem þær vilji. „Markmið mitt er að hver og ein ung kona sem hlustar hugsi með sér hvernig hún geti skapað framtíð sína með þeim hætti að hún geti elt drauma sína og eflt sig í leik og starfi.“

„Í gegnum tíðina höfum við Íslendingar verið rosalega upptekin af því að vinna sé dyggð og sé undirstaða þess að þú sért einhvers virði í samfélaginu. Mér finnst þetta hins vegar vera að breytast hratt í dag, og mér finnst það frábært hvernig ungt fólk er að endurmeta gildi sín. Ég held að með nýrri kynslóð munum við fara inn í meira skapandi framtíð þar sem grunngildi manneskjunnar og jafnvægi í leik og starfi verða í hávegum höfð.“

Betri í að grípa tækifærin en að gera áætlanir
Ásta hefur alla tíð unnið náið með stjórnendum fyrirtækja í því að efla nýsköpun og sjálfbærni og horfa á stóru myndina. „Við Íslendingar erum ótrúlega góð í að nýta tækifæri og gerum það betur en margar aðrar þjóðir. Það sem okkur hefur hins vegar gengið verr með er lengri tíma áætlanagerð. Það sem ég persónulega hef brunnið fyrir er að sjá fyrirtæki ná raunverulegum árangri með því að nýta sér þessi tól og tæki, sem dæmi með því að fara yfir gögnin og sjá hvaðan viðskiptavinir viðkomandi fyrirtækis eru,“ segir hún en tekur fram að nálgunin geti gagnast mun fleiri fyrirtækjum en þeim sem eru í ferðaþjónustu.

„Ég trúi því að þeir stjórnendur sem eru alltaf að huga að því hvernig þeir geti gert betur í dag séu með því að tryggja samkeppnishæfni sína. Það er ótrúlega gefandi að vinna með þeim í að efla þessa hæfni og getu til að breyta áskorunum dagsins í dag í tækifæri og finna sinn raunverulega kjarna og tilgang.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .