Stoðir högnuðust um 2,5 milljarða á fyrri hluta ársins. Eigið fé nam 53,7 milljörðum nú í lok júní, sem samsvarar um 4,31 krónum á hlut. Ávöxtun hlutabréfa félagsins var jákvæð um 4,8% á tímabilinu. Þetta kemur fram í bréfi sem Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða, sendi hluthöfum í dag.

Mikill viðsnúningur hefur orðið á rekstrinum því fyrstu sex mánuði síðasta árs nam tap Stoða tæplega 4,2 milljörðum króna.

Í bréfinu segir Jón að á ýmsu hafi gengi á fyrri hluta ársins.

"Á alþjóðasviðinu ber helst að nefna tollastefnu Bandaríkjaforseta sem hefur valdið miklum sveiflum á verði hlutabréfa erlendis," segir Jón. „Eftir miklar lækkanir í kjölfar þess að fyrstu hugmyndir um tolla voru settar fram í apríl hafa markaðir engu að síður náð vopnum sínum og eru nú í hæstu hæðum. Áfram er þó mikil óvissa um framhald þessara mála."

„Innanlands má segja að áframhaldandi þrálát verðbólga og minnkandi væntingar um vaxtalækkanir hafi verið ráðandi í þróun verðbréfamarkaðarins. Þar að auki hafa skattahækkanir á sjávarútvegsfélög og neikvæð umræða á hinum pólitíska vettvangi haft neikvæð áhrif á verðmæti skráðra fyrirtækja í þessari atvinnugrein."

Jón segir að heilt yfir hafi rekstur félaga í eignasafni Stoða gengið vel á fyrri hluta ársins.

„Arion banki skilaði mjög góðu uppgjöri fyrir fyrstu sex mánuði ársins og var afkoman á öðrum ársfjórðungi ein sú besta í áraraðir. Það er því ljóst að rekstur bankans er í mjög góðu horfi. Rekstur Kviku banka hefur á sama tíma haldið áfram að styrkjast og vöxtur í lánasafni hefur verið í samræmi við þau plön sem kynnt voru á fjárfestadegi bankans síðastliðið haust."

Engin orð fá því lýst

Jón segi að framkvæmdir First Water við uppbyggingu á fiskeldisstöð í Þorlákshöfn haldi áfram á sama tíma og félagið ali gæða lax, sem sé svo slátrað og seldur á alþjóðlegum markaði.

„Það er óhætt að segja að engin orð fá því lýst hversu stór og umfangsmikil þessi uppbygging er. Í mars var kláruð hlutafjáraukning upp á 5,7 milljarða króna til að styðja áfram við verkefnið og keyptu Stoðir 2,3 milljarða króna af því. Mikilvægur áfangi náðist síðan fyrr í sumar þegar fyrsti laxinn fór í 25 metra ker en það er forsenda þess að við getum alið fiskinn upp í ákjósanlega sláturstærð, sem er um 5 kg. First Water gerir ráð fyrir að fyrstu kynslóð af 5 kg laxi verði slátrað síðar í haust. Það er vissulega seinna en við gerðum ráð fyrir en félagið er engu að síður á góðri leið með að verða með þeim fyrstu í heiminum að ná þessum áfanga."

Gaus „aðeins" einu sinni

Að sögn Jóns hafa miklar áskoranir tengdar jarðhræringum haldið áfram í rekstri Bláa Lónsins þó þær séu orðnar óverulegar miðað við síðustu tvö ár.

„Á fyrri hluta ársins gaus „aðeins“ einu sinni en í júlímánuði bættist annað eldgos við. Eins og ég hef áður komið inn á í bréfum mínum, þá er algjörlega magnað að fylgjast með því hvernig starfsfólk og stjórnendur takast á við þessar áskoranir. Í báðum tilfellum tókst að opna starfsemi Bláa Lónsins í Svartsengi aftur á innan við sólarhring – það er ótrúlegt.

Þrátt fyrir óvissuna hefur félagið haldið áfram að styrkja innviði sína en bæði hefur verið byggt nýtt bílastæði innan varnargarða sem er stærra en það sem var áður og svo hafa búningsklefar verið endurbættir og þeim fjölgað. Fjárfestingar í öðrum rekstrareiningum hafa svo haldið áfram en uppbygging í Þjórsárdal er í fullum gangi auk þess sem endurnýjun stendur yfir á Jarðböðunum á Mývatni og Fontana á Laugarvatn."

Vaxtavegferð Arctic Adventures

Jón segir að Arctic Adventures haldi áfram á sinni vaxtarvegferð en á fyrri hluta ársins hafi verið gengið frá kaupum á Happy Campers, sem reki húsbílaleigu.

"Með kaupunum getur Arctic Adventures boðið viðskiptavinum sínum upp á enn meiri fjölbreytni í ferðaþjónustu. Algjör viðsnúningur hefur orðið á grunnrekstri félagsins og er reksturinn það sem af er ári yfir áætlunum stjórnenda. Samhliða áframhaldandi ytri vexti er unnið að frekari uppbyggingu þeirra vinsælu ferðamannastaða sem eru í eigu Arctic Adventures, en þar ber helst að nefna Kerið og Fjaðrárgljúfur sem samtals taka á móti hátt í milljón gestum á ári."

Umrót á fjarskiptamarkaði

Jón segir rekstur Símans hafa verið í föstum skorðum þrátt fyrir mikið umrót á sjónvarps- og fjarskiptamarkaði.

„Hluti af því sögulega umróti var leitt til lykta í Hæstarétti á fyrri hluta ársins þegar Síminn tapaði svokölluðu „Enska bolta máli“ og var gert að greiða 400 milljónir króna í sekt. Þessi niðurstaða var mikil vonbrigði enda hafði Síminn haft fullnaðarsigur á neðri dómsstigum en tapaði svo með 2 atkvæðum gegn 3 í Hæstarétti. Það þýðir lítið að deila við dómarann og er það von mín að sömu lög og reglur gildi fyrir alla sem starfa á þessum markaði. Á næstunni verður lykiláhersla lögð á áframhaldandi traustan og öflugan rekstur samhliða því að finna tækifæri til að styrkja og efla Símann enn frekar með innri og ytri vexti."