Þegar War­ren Buf­fett lætur af störfum sem for­stjóri Berks­hire Hat­haway um næstu áramót tekur Greg Abel við stjórnar­taumunum í einni áhrifa­mestu fjár­festinga­sam­steypu heims.

Sam­kvæmt The Wall Street Journaleru þó fjár­festar byrjaðir að velta nú fyrir sér hvort Abel muni njóta sama óskoraðs trausts meðal hlut­hafa og Buf­fet en hann ávann sér traustið í gegnum ára­tuga langt starf.

Buf­fett hefur skapað sér orð­spor sem ein­stakur fjár­festir með óvenju­legt næmi fyrir verðmæta­sköpun.

Það orð­spor hefur gert honum kleift að víkja frá hefðbundnum viðmiðum reiknings­skila og stjórnar­hátta án teljandi mót­mæla frá hlut­höfum. Óvíst er hvort eftir­maður hans fær sömu með­ferð.

Ein fyrsta raun­veru­lega próf­raun Abels gæti tengst breytingum á mat­vælarisanum Kraft Heinz, þar sem Berks­hire á 27% hlut.

Þrátt fyrir slæma ávöxtun síðastliðin ár hyggst fyrir­tækið nú skipta sér upp í minni einingar en í von um að verða arðbært aftur. Viðbrögð markaðarins við áformum félagsins hafa verið fremur dauf en hluta­bréf félagsins hafa aðeins hækkað um 10% frá því að til­kynnt var um ákvörðunina og hefur gengið lækkað um 12% á árinu.

Á sama tíma skráði Berks­hire hlut sinn í Kraft Heinz á 13,5 milljarða dollara í lok mars – sem var 37% hærra en markaðsvirðið á þeim tíma.

Markaðsvirðið hefur síðan lækkað enn frekar og er nú komið niður í 9,4 milljarða dali.

Ástæðan fyrir þessum mun liggur í því að Berks­hire nýtir svo­kallaða hlut­deildarað­ferð, þar sem virði er byggt á hlut­deild í hagnaði fremur en markaðsverði. Buf­fett kaus að færa ekki niður virði eignarinnar og taldi lækkunina tíma­bundna, ákvörðun sem markaðurinn tók að mestu án at­huga­semda.

Ákvarðanir sem aðeins Buf­fett kemst upp með?

Svipuð staða blasir við í til­viki Occidental Petroleum, þar sem Berks­hire skráði 28% hlut sinn á 17,2 milljarða dollara, um þriðjungi hærra en raun­virði hluta­bréfanna. Saman­lagt eru þessi tvö félög metin tæpum 10 milljörðum dollara yfir markaðsvirði í bókum Berks­hire, sem myndi vafa­laust vekja gagn­rýni ef um önnur fyrir­tæki væri að ræða.

En í til­viki Berks­hire hafa slík frávik lengi verið hluti af því sem fjár­festar hafa kosið að líta fram­hjá, ekki síst vegna orð­spors Buf­fett og þess hvernig hann hefur ítrekað lagt áherslu á að bók­færðir hagnaðar- og tap­liðir séu lítt gagn­legir til að meta raun­veru­legt gildi fyrir­tækisins.

Það er þó alls óvíst hvort fjár­festar muni sýna Abeli sama skilning, ef hann ákveður að túlka markaðslækkun á sam­bæri­legan hátt. Slíkar ákvarðanir byggjast á trausti – og það verður Abel að vinna sér inn frá grunni.