Þegar Warren Buffett lætur af störfum sem forstjóri Berkshire Hathaway um næstu áramót tekur Greg Abel við stjórnartaumunum í einni áhrifamestu fjárfestingasamsteypu heims.
Samkvæmt The Wall Street Journaleru þó fjárfestar byrjaðir að velta nú fyrir sér hvort Abel muni njóta sama óskoraðs trausts meðal hluthafa og Buffet en hann ávann sér traustið í gegnum áratuga langt starf.
Buffett hefur skapað sér orðspor sem einstakur fjárfestir með óvenjulegt næmi fyrir verðmætasköpun.
Það orðspor hefur gert honum kleift að víkja frá hefðbundnum viðmiðum reikningsskila og stjórnarhátta án teljandi mótmæla frá hluthöfum. Óvíst er hvort eftirmaður hans fær sömu meðferð.
Ein fyrsta raunverulega prófraun Abels gæti tengst breytingum á matvælarisanum Kraft Heinz, þar sem Berkshire á 27% hlut.
Þrátt fyrir slæma ávöxtun síðastliðin ár hyggst fyrirtækið nú skipta sér upp í minni einingar en í von um að verða arðbært aftur. Viðbrögð markaðarins við áformum félagsins hafa verið fremur dauf en hlutabréf félagsins hafa aðeins hækkað um 10% frá því að tilkynnt var um ákvörðunina og hefur gengið lækkað um 12% á árinu.
Á sama tíma skráði Berkshire hlut sinn í Kraft Heinz á 13,5 milljarða dollara í lok mars – sem var 37% hærra en markaðsvirðið á þeim tíma.
Markaðsvirðið hefur síðan lækkað enn frekar og er nú komið niður í 9,4 milljarða dali.
Ástæðan fyrir þessum mun liggur í því að Berkshire nýtir svokallaða hlutdeildaraðferð, þar sem virði er byggt á hlutdeild í hagnaði fremur en markaðsverði. Buffett kaus að færa ekki niður virði eignarinnar og taldi lækkunina tímabundna, ákvörðun sem markaðurinn tók að mestu án athugasemda.
Ákvarðanir sem aðeins Buffett kemst upp með?
Svipuð staða blasir við í tilviki Occidental Petroleum, þar sem Berkshire skráði 28% hlut sinn á 17,2 milljarða dollara, um þriðjungi hærra en raunvirði hlutabréfanna. Samanlagt eru þessi tvö félög metin tæpum 10 milljörðum dollara yfir markaðsvirði í bókum Berkshire, sem myndi vafalaust vekja gagnrýni ef um önnur fyrirtæki væri að ræða.
En í tilviki Berkshire hafa slík frávik lengi verið hluti af því sem fjárfestar hafa kosið að líta framhjá, ekki síst vegna orðspors Buffett og þess hvernig hann hefur ítrekað lagt áherslu á að bókfærðir hagnaðar- og tapliðir séu lítt gagnlegir til að meta raunverulegt gildi fyrirtækisins.
Það er þó alls óvíst hvort fjárfestar muni sýna Abeli sama skilning, ef hann ákveður að túlka markaðslækkun á sambærilegan hátt. Slíkar ákvarðanir byggjast á trausti – og það verður Abel að vinna sér inn frá grunni.