Í árshlutauppgjöri Landsbankans um miðjan mánuð var greint frá áhrifum CRR III á eignir bankans en áður höfðu Kvika, Arion og Íslandsbanki birt slíkar upplýsingar. Samkvæmt uppgjöri Landsbankans er áætlað að áhættugrunnur bankans lækki um 64 milljarða króna og að eiginfjárhlutfall hækki úr 24,0% í 25,0%.
Áhrifin eru mest vegna útlána til viðskiptavina, meðal annars vegna lækkunar áhættugrunns útlána með veði í fasteignum. Mestu áhrifin til hækkunar áhættugrunns eru vegna útlána til byggingarframkvæmda en uppgjör bankans miðast við 30. júní og því er ekki tekið mið af nýjum reglum EBA.
Samkvæmt Hreiðari Bjarnasyni, fjármálastjóra Landsbankans, mun sú breyting að óbreyttu hafa jákvæð áhrif á útreikninga tengda CRR III en hann segir engu að síður að Landsbankinn bíði eftir túlkun Fjármálaeftirlitsins á öðrum afmörkuðum þáttum í regluverkinu.
Spurður um hvort breytingarnar muni leiða til breyttra kjara hjá lántakendum segir Hreiðar ljóst að næmari áhættuvigt muni hafa áhrif á vöruframboð bankans.
„Veðhlutföll íbúðalána hafa nú þegar nokkur áhrif á þau vaxtakjör sem bjóðast hjá Landsbankanum. Með nýju regluverki verður áhættuvigt íbúðalána enn næmari en áður gagnvart bæði mismunandi veðhlutföllum og tegund íbúðalána og mun vöruframboð bankans til framtíðar taka mið af þeim breytingum,“ segir Hreiðar.
Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá munu lán með veðhlutfall undir 55% njóta lægri áhættuvogar, eða aðeins 20% í nýja regluverkinu, en á móti hækka áhættuvogir lána sem fara yfir 55% veðhlutfall í 75%.
Þar sem eigið fé íslenskra banka er nú þegar mjög hátt í alþjóðlegum samanburði er talið líklegt að það eigið fé sem losnar með innleiðingu CRR III verði greitt til hluthafa með einhverjum hætti.
Landsbankinn er þó í sérstöðu þar sem ríkissjóður er stærsti eigandinn með 98,2% eignarhlut.
Spurður um hvernig Landsbankinn hyggst nýta þetta auka eigið fé segir Hreiðar reglurnar auka arðgreiðslu- og útlánagetu bankans.
„Lækkun áhættugrunns upp á 64 milljarða króna leiðir til um 13 milljarða króna lækkunar á eiginfjárbindingu bankans. Að öðru óbreyttu leiðir breytingin til aukinnar arðgreiðslugetu og styrkir jafnframt útlánagetu bankans,“ segir Hreiðar.