Elon Musk hyggst nú hefja birtingu aug­lýsinga í svörum Grok, gervi­greindar­spjall­menni sam­félags­miðilsins X.

Þetta verður í fyrsta sinn sem not­endur fá aug­lýsingar beint frá gervigreindarspjall­menni á borð við Grok, sem þróað var af fyrir­tæki Musks, xAI.

Mark­miðið er að blása lífi í aug­lýsinga­tekjur X en þær hafa dregist saman frá því Musk tók við stjórnar­taumunum, samkvæmt Financial Times.

„Ef notandi er að leysa vanda­mál, þá væri aug­lýsing sem sýnir við­eig­andi lausn kjörin á því augna­bliki,“ sagði Musk í beinni út­sendingu með aug­lý­sendum á mið­viku­dag.

Aug­lý­sendur munu fá mögu­leika á að borga fyrir að birtast í svörum Grok, en það markar stefnu­breytingu frá öðrum gervi­greindarþróendum á borð við OpenAI, sem hafa lýst yfir and­stöðu við slík aug­lýsinga­inn­grip.

Musk sagðist hafa lagt mesta áherslu á að gera Grok sem „greindasta og nákvæmasta“ AI í heimi. Nú verði sjónum beint að því hvernig hægt sé að fjár­magna reksturinn – ekki síst kostnaðar­sama GPU-inn­viði sem knýja gervi­greindina.

Sjálf­virk markaðs­setning

Með tækni xAI hyggst Musk einnig bæta mark­vissu aug­lýsinga með sjálf­virkum lausnum og ná þannig til réttra not­enda með minni til­kostnaði.

X full­yrðir að þessi þróun hafi nú þegar skilað sér í í raunverulegum kaupum eftir að notandi sér aug­lýsingu. Kaupendur hafa aukist um 40% frá júní, en meðal­kostnaður aug­lýsinga hafi lækkað um 7% á milli fjórðunga.

Þrátt fyrir metnaðinn hefur X glímt við ímyndar­kreppu meðal aug­lý­senda vegna inni­haldsvanda og sla­krar miðlunar.

Ný­leg um­deild svör Grok, þar sem það hrósaði Adolf Hitler, hafa aukið á tor­tryggni markaðarins.

Margir stærstu aug­lý­sendur forðuðust um­rætt sam­tal við Musk og einn full­trúi hjá alþjóð­legri miðlunar­fyrir­tækja­sam­steypu sagði: „Ég eyði ekki tíma mínum í þetta.“

Endur­koma Musks sem and­lit X

Frá því að Linda Yac­carino, fyrr­verandi for­stjóri X, lét af störfum í júlí hefur Musk aftur tekið að sér lykil­hlut­verk í tengslum við aug­lý­sendur.

Hann sagðist nú vilja „rjúfa bölvun Twitter“, þar sem not­endur höfðu lengi verið virkir án þess að aug­lýsingar væru sýni­legar eða við­eig­andi.

Í því sam­hengi kynnti hann einnig áform um að þróa greiðslu­lausnir inni í appinu sjálfu, sem leyfa not­endum að klára kaup beint úr aug­lýsingu án þess að yfir­gefa X.