Elon Musk hyggst nú hefja birtingu auglýsinga í svörum Grok, gervigreindarspjallmenni samfélagsmiðilsins X.
Þetta verður í fyrsta sinn sem notendur fá auglýsingar beint frá gervigreindarspjallmenni á borð við Grok, sem þróað var af fyrirtæki Musks, xAI.
Markmiðið er að blása lífi í auglýsingatekjur X en þær hafa dregist saman frá því Musk tók við stjórnartaumunum, samkvæmt Financial Times.
„Ef notandi er að leysa vandamál, þá væri auglýsing sem sýnir viðeigandi lausn kjörin á því augnabliki,“ sagði Musk í beinni útsendingu með auglýsendum á miðvikudag.
Auglýsendur munu fá möguleika á að borga fyrir að birtast í svörum Grok, en það markar stefnubreytingu frá öðrum gervigreindarþróendum á borð við OpenAI, sem hafa lýst yfir andstöðu við slík auglýsingainngrip.
Musk sagðist hafa lagt mesta áherslu á að gera Grok sem „greindasta og nákvæmasta“ AI í heimi. Nú verði sjónum beint að því hvernig hægt sé að fjármagna reksturinn – ekki síst kostnaðarsama GPU-innviði sem knýja gervigreindina.
Sjálfvirk markaðssetning
Með tækni xAI hyggst Musk einnig bæta markvissu auglýsinga með sjálfvirkum lausnum og ná þannig til réttra notenda með minni tilkostnaði.
X fullyrðir að þessi þróun hafi nú þegar skilað sér í í raunverulegum kaupum eftir að notandi sér auglýsingu. Kaupendur hafa aukist um 40% frá júní, en meðalkostnaður auglýsinga hafi lækkað um 7% á milli fjórðunga.
Þrátt fyrir metnaðinn hefur X glímt við ímyndarkreppu meðal auglýsenda vegna innihaldsvanda og slakrar miðlunar.
Nýleg umdeild svör Grok, þar sem það hrósaði Adolf Hitler, hafa aukið á tortryggni markaðarins.
Margir stærstu auglýsendur forðuðust umrætt samtal við Musk og einn fulltrúi hjá alþjóðlegri miðlunarfyrirtækjasamsteypu sagði: „Ég eyði ekki tíma mínum í þetta.“
Endurkoma Musks sem andlit X
Frá því að Linda Yaccarino, fyrrverandi forstjóri X, lét af störfum í júlí hefur Musk aftur tekið að sér lykilhlutverk í tengslum við auglýsendur.
Hann sagðist nú vilja „rjúfa bölvun Twitter“, þar sem notendur höfðu lengi verið virkir án þess að auglýsingar væru sýnilegar eða viðeigandi.
Í því samhengi kynnti hann einnig áform um að þróa greiðslulausnir inni í appinu sjálfu, sem leyfa notendum að klára kaup beint úr auglýsingu án þess að yfirgefa X.