Evrópusambandið og bandarísk stjórnvöld eru nálægt því að ná samkomulagi um viðskiptasamning sem myndi fela í sér 15% toll á vörur sem fluttar eru frá aðildarríkjum ESB til Bandaríkjanna, samkvæmt Financial Times.
Bæði ESB og Bandaríkin stefna að því að veita ákveðnum vöruflokkum undanþágu, þar á meðal flugvélum, áfengum drykkjum og lækningavörum samkvæmt heimildarmönnum FT.
Framkvæmdastjórn ESB hyggst þó áfram undirbúa mögulega refsitolla sem gætu numið allt að 30%, að andvirði 93 milljarðar evra, ef ekki tekst að landa samningi við Bandaríkin fyrir 1. ágúst.
Framkvæmdastjórn ESB sagði fyrr í dag að Framkvæmdastjórn ESB að það væri í forgangi hjá sambandi að koma í veg fyrir álagningu 30% tolla á útflutning til Bandaríkjanna, sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hafði hótað.
Fregnirnar fylgja í kjölfar þess að Bandaríkin og Japan náðu samkomulagi um viðskiptasamning sem felur í sér að 15% tollur verður lagður á innfluttar vörur frá Japan til Bandaríkjanna.
Í fyrra voru flutt inn ökutæki og varahlutir til Bandaríkjanna frá Japan að andvirði 55 milljarða. Í tilviki aðildarríkja ESB nam fjárhæðin 47,3 milljarðar evra. Talsvert færri bílar voru fluttir frá Bandaríkjunum til Evrópu og Japans, að því er segir í frétt Reuters.