Innlán hafa gefið af sér betri ávöxtun en fjárfestingar í skuldabréfum allt frá árinu 2021, þegar vaxtahækkunarferli Seðlabankans hófst. Þetta kann að vera að breytast og leiða sérfræðingar Kviku að þeirri niðurstöðu í nýrri greiningu frá bankanum. Þeir telja að skuldabréfin geti átt mikið inni, jafnvel þó ekki verði gripið til frekari vaxtalækkana á þessu ári, enda séu bæði stýrivextir og krafa skuldabréfa enn töluvert yfir langtímameðaltali.
Fram kemur í greiningu Kviku að þótt innlán hafi skilað betri ávöxtun en skuldabréf undanfarin fjögur ár, þá hafi skuldabréfin skilað umtalsvert betri ávöxtun þegar litið er til síðustu fimmtán ára – eða 6,5% árlegrar ávöxtunar samanborið við 4,8% árlega ávöxtun innlánavísitölunnar.
Skurðpunkturinn nálgast óðum
Bent er á að þrátt fyrir væntingar um annað hafi skuldabréf skilað óvenju slakri ávöxtun frá því að núverandi vaxtalækkunarferli hófst. Slíkt hefur jafnan verið raunin þegar Seðlabankinn hefur verið í vaxtalækkunarham. Sem fyrr segir eru bæði stýrivextir og lengri krafa skuldabréfa yfir langtímameðaltali og viðbúið sé að vextir fari „almennt lækkandi út rófið þegar horft er til millilangs tíma“, eins og það er orðað í greiningu Kviku.
Þar segir:
„Stóra spurningin er því hvernig best sé að tímasetja hliðrun úr innlánum yfir í skuldabréf. Hugsanlega verður orsakavaldur kröfulækkunar á lengri endanum sá að stutti og lengri endinn skerast og rófið verður aftur upphallandi, en það gæti leitt til innflæðis úr innlánum inn á skuldabréfamarkað að nýju. Þessi skurðpunktur nálgast óðum, en skuldabréf hafa undanfarin ár skilað góðri ávöxtun í aðdraganda þess að vaxtarófið verður upphallandi.“
Raunhæf sviðsmynd
Sérfræðingar Kviku sjá fyrir sér að það gæti vel raungerst að skuldabréf skili allt að tíu prósent ávöxtun á næstu tólf mánuðum. Slík sviðsmynd væri í góðu samræmi við ávöxtun síðustu fimmtán ára, þegar tíu ára krafan hefur verið í grennd við 7%.