Dómstóll í Dan­mörku hefur sýknað Jyske Bank af megin­at­riðum í máli sem For­bru­gerombudsmanden (um­boðs­maður neyt­enda) höfðaði vegna inn­leiðingar neikvæðra vaxta á inn­lán ein­stak­linga.

Niður­staðan er for­dæmis­gefandi sem stað­festir að danskir bankar höfðu laga­legan rétt til að leggja á neikvæða vexti á þeim árum þegar stýri­vextir í Dan­mörku voru neikvæðir.

Jyske Bank var fyrstur danskra banka til að inn­leiða neikvæða vexti í desember 2019.

Mark­mið bankans var að mæta því tekju­tapi sem banka­kerfið stóð frammi fyrir eftir að danski seðla­bankinn hafði haft stýri­vexti undir núlli sam­fellt frá árinu 2012.

Neikvæðir vextir þýddu í reynd að ein­staklingar og fyrir­tæki þurftu að greiða fyrir að geyma fé sitt á banka­reikningi, í stað þess að fá vexti greidda.

Ákvörðunin var mjög um­deild og sætti bæði pólitískri og al­mennri gagn­rýni, meðal annars frá þáverandi við­skiptaráðherra, Simon Kollerup.

Skilmálar bankans eru ekki nægi­lega skýrir.

Um­boðs­maður neyt­enda hélt því fram að Jyske Bank hefði hvorki haft skýran laga­grund­völl né nægi­lega af­dráttar­lausa skilmála til að leggja á neikvæða vexti á 11 mis­munandi tegundir reikninga, þar á meðal bundna spari­reikninga og barna­sparnaðar­reikninga.

Bankinn benti hins vegar á að vaxta­kjör væru skil­greind sem „breyti­leg“ og því hefði legið í augum uppi að þau gætu orðið bæði jákvæð og neikvæð, sér­stak­lega í ljósi vaxta­stefnu Seðlabankans.

Dómstólinn féllst á þessa rök­semda­færslu bankans og sagði að inn­leiðing neikvæðra vaxta frá 1. desember 2019 til 14. desember 2021 hefði verið „hlutlægt rétt­lætan­leg“ og ekki óeðli­leg.

Þó að Jyske Bank hafi verið sýknaður af öllum megin­ákvæðum málsins fékk umboðsmaður neytenda fram­gengt tveimur minni háttar at­riðum.

Þau snerust um orðalag í skilmálum bankans til ársins 2023 þar sem stóð að bankinn „gæti ákveðið að færa ekki til­teknar vaxta­fjár­hæðir“ án þess að til­greina nákvæm mörk.

Bankinn skýrði fyrir dómi að upp­hæðin hefði verið 5 danskar krónur, en dómurinn taldi orða­lagið of opið fyrir túlkun og gagn­rýndi það.

Málið var talið mjög mikilvægt fyrir allan banka­geirann þar sem sam­bæri­leg mál hefðu getað ratað fyrir dóm ef Jyske Bank hefði verið sak­felldur.

Samtök banka í Dan­mörku, Finans Dan­mark, fylgdust náið með niður­stöðunni og töldu hana nauð­syn­lega fyrir allra banka sem inn­leiddu neikvæða vexti á sínum tíma.

„Frá upp­hafi höfum við talið okkur hafa bæði laga­legan og við­skipta­legan rétt til að leggja á neikvæða vexti. Við erum því mjög ánægð og létt að dómurinn stað­festir það í öllum megin­at­riðum,“ sagði Martin Skov­sted-Niel­sen, lög­fræði­stjóri Jyske Bank, í yfir­lýsingu.