Dómstóll í Danmörku hefur sýknað Jyske Bank af meginatriðum í máli sem Forbrugerombudsmanden (umboðsmaður neytenda) höfðaði vegna innleiðingar neikvæðra vaxta á innlán einstaklinga.
Niðurstaðan er fordæmisgefandi sem staðfestir að danskir bankar höfðu lagalegan rétt til að leggja á neikvæða vexti á þeim árum þegar stýrivextir í Danmörku voru neikvæðir.
Jyske Bank var fyrstur danskra banka til að innleiða neikvæða vexti í desember 2019.
Markmið bankans var að mæta því tekjutapi sem bankakerfið stóð frammi fyrir eftir að danski seðlabankinn hafði haft stýrivexti undir núlli samfellt frá árinu 2012.
Neikvæðir vextir þýddu í reynd að einstaklingar og fyrirtæki þurftu að greiða fyrir að geyma fé sitt á bankareikningi, í stað þess að fá vexti greidda.
Ákvörðunin var mjög umdeild og sætti bæði pólitískri og almennri gagnrýni, meðal annars frá þáverandi viðskiptaráðherra, Simon Kollerup.
Skilmálar bankans eru ekki nægilega skýrir.
Umboðsmaður neytenda hélt því fram að Jyske Bank hefði hvorki haft skýran lagagrundvöll né nægilega afdráttarlausa skilmála til að leggja á neikvæða vexti á 11 mismunandi tegundir reikninga, þar á meðal bundna sparireikninga og barnasparnaðarreikninga.
Bankinn benti hins vegar á að vaxtakjör væru skilgreind sem „breytileg“ og því hefði legið í augum uppi að þau gætu orðið bæði jákvæð og neikvæð, sérstaklega í ljósi vaxtastefnu Seðlabankans.
Dómstólinn féllst á þessa röksemdafærslu bankans og sagði að innleiðing neikvæðra vaxta frá 1. desember 2019 til 14. desember 2021 hefði verið „hlutlægt réttlætanleg“ og ekki óeðlileg.
Þó að Jyske Bank hafi verið sýknaður af öllum meginákvæðum málsins fékk umboðsmaður neytenda framgengt tveimur minni háttar atriðum.
Þau snerust um orðalag í skilmálum bankans til ársins 2023 þar sem stóð að bankinn „gæti ákveðið að færa ekki tilteknar vaxtafjárhæðir“ án þess að tilgreina nákvæm mörk.
Bankinn skýrði fyrir dómi að upphæðin hefði verið 5 danskar krónur, en dómurinn taldi orðalagið of opið fyrir túlkun og gagnrýndi það.
Málið var talið mjög mikilvægt fyrir allan bankageirann þar sem sambærileg mál hefðu getað ratað fyrir dóm ef Jyske Bank hefði verið sakfelldur.
Samtök banka í Danmörku, Finans Danmark, fylgdust náið með niðurstöðunni og töldu hana nauðsynlega fyrir allra banka sem innleiddu neikvæða vexti á sínum tíma.
„Frá upphafi höfum við talið okkur hafa bæði lagalegan og viðskiptalegan rétt til að leggja á neikvæða vexti. Við erum því mjög ánægð og létt að dómurinn staðfestir það í öllum meginatriðum,“ sagði Martin Skovsted-Nielsen, lögfræðistjóri Jyske Bank, í yfirlýsingu.