Novo Nordisk hefur lækkað verð á Ozempic í Bandaríkjunum um helming fyrir þá sem ekki hafa aðgang að lyfinu í gegnum sjúkratryggingar.

Jafnframt býður lyfjafyrirtækið danska upp nú upp á heimsendingu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu í dag.

Hlutabréf lyfjafyrirtækisins hækkuðu um 6% eftir að fyrirtækið greindi frá því að það myndi lækka verð á mánaðarskammti af vinsæla sykursýkis- og þyngdartapslyfinu Ozempic niður í 499 dali, eða um 71.000 krónur á mánuði.

Áður kostaði Ozempic um 1.000 dali, eða 142.000 krónur í Bandaríkjunum fyrir þá sem voru án sjúkratrygginga.

Verðlækkunin kemur í kjölfar þess að Novo og helsti keppinautur þess í grenningarlyfjum, bandaríska Eli Lilly, hafa tapað samtals 252 milljörðum dala, eða 35.784 milljarða króna, í markaðsvirði á þessu ári.

Aðallega vegna áhyggja af tollum, verðþökum, harðri samkeppni og aukinni útbreiðslu samheitalyfja.

Lækkunin mun þó aðeins hafa áhrif á lítinn hluta bandarískra sjúklinga. Novo hefur áður sagt að 98% þeirra sem taka Ozempic fái það í gegnum sjúkratryggingar og greiði 25 dali, um 3.500 krónur, eða minna.

Deild innan fyrirtækisins, NovoCare, mun nú einnig bjóða upp á heimsendingu á Ozempic.

Novo bætti við að það hygðist einnig bjóða Ozempic og annað þyngdarstjórnunarlyf sitt, Wegovy, í gegnum fjarheilbrigðisfyrirtækið GoodRx, en hlutabréf síðarnefnda félagsins hækkuðu um 35% eftir tilkynninguna.

Verðlækkunin er sigur fyrir Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, sem hefur gagnrýnt lyfjafyrirtæki harðlega fyrir hátt verð í Bandaríkjunum og þrýst á lækkanir og beina sölu

Í mars lækkaði Novo Nordisk einnig verð á Wegovy niður í 499 dali, eða 71.000 krónur. Ozempic er fyrst og fremst notað við sykursýki en hefur einnig sýnt góð áhrif við að léttast.