Samkaup hafa sett á markað smáforrit undir nafninu Samkaup – verslun við hendina sem gefur viðskiptavinum afslátt í ríflega 60 verslunum félagsins. Appið er hannað af Coop í Danmörku.
„ Appið er stafrænt tryggðarkerfi Samkaupa og fá viðskiptavinir 2% afslátt af öllum vörum í formi inneignar í hvert sinn sem þeir versla. Meðalsparnaður viðskiptavina er um 50 þúsund krónur á ári auk þess sem þeir fá aðgang að sérstökum tilboðum." Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samkaupum.
Í tilkynningunni segir að appið sé einfalt í notkun. Viðskiptavinir skanna inn QR -kóða með símanum við afgreiðslukassann í hvert sinn sem þeir versla og afslátturinn kemur strax inn í formi inneignar. Í appinu geta viðskiptavinir séð hversu mikinn afslátt þeir fá hverju sinni og hver uppsöfnuð inneign þeirra er auk þess sem þeim standa til boða reglulega sértilboð á matvöru.
Viðskiptavinir geta skráð greiðslukort í appið og notað það sem milliliðalausa greiðslu og fá rafræna kvittun senda beint í appið . Appið gefur þannig góða yfirsýn yfir mánaðarleg matarinnkaup.
Samkaup rekur rúmlega 60 verslanir víðsvegar um landið undir vörumerkjunum Nettó, Krambúðin, Kjörbúðin, Iceland og Samkaup Strax og gildir afslátturinn sem fylgir appinu í öllum verslunum félagsins. Hægt er að nálgast Samkaup – verslun við hendina frítt í vefverslunum App Store ( Apple ) og Google Play store ( Android ).