Haraldur Þórðarson, forstjóri Skaga, segir að talsverð gerjun hafi átt sér stað í samkeppnisumhverfinu, sem gæti falið í sér margvísleg tækifæri fyrir Skaga. Það eigi ekki einungis við um ytri vöxt en mögulegar breytingar meðal samkeppnisaðila í ljósi samrunaviðræðna Kviku banka og Arion banka gætu t.d. skapað eyðu sem Skagi gæti fyllt.
„Við ætlum að halda áfram að láta að okkur kveða á markaðnum með áframhaldandi innri vexti. En ef við sjáum ytri vaxtartækifæri sem að við teljum að þjóni hagsmunum félagsins eða hluthöfum þá munum við auðvitað skoða það vandlega, eins og við höfum sýnt áður, t.d. með kaupum á ÍV.“
Meðal sviðsmynda sem settar hafa verið fram eftir að samrunaviðræður Kviku banka og Arion banka hófust er að Kvika myndi selja frá sér eignastýringarstarfsemi sína til að liðka fyrir samþykki Samkeppniseftirlitsins, og hefur Skagi verið nefndur sem mögulegur kaupandi. Spurður út í þá sviðsmynd segir Haraldur að ytri vaxtartækifæri á sviði eignastýringar myndu sannarlega falla að stefnu Skaga en félagið sé með skýra vaxtarstefnu, sem eigi einnig við um önnur fyrirtæki samstæðunnar.
Áhugavert tímabil sé fram undan og tækifæri í fjármálakerfinu til þess að ná fram aukinni stærðarhagkvæmni, ekki síst meðal keppenda á borð við Skaga sem séu í vaxtarfasa.
„Það virðist vera þannig að boltinn er kominn af stað og ólíklegasta niðurstaðan er að ástandið verði óbreytt. Þannig ég horfi á það sem okkar hlutverk að félagið sé sem best undirbúið fyrir þær breytingar sem virðast vera fram undan og að vera alltaf í stakk búið til að nýta tækifæri þegar þau gefast, en þau geta birts okkur bæði í formi tækifæra til innri og ytri vaxtar,“ segir Haraldur.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.